05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (1784)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Umr. um baðlyfjagerð fjalla nú um nokkuð ólíkt efni því, sem síðast var til umr.* Sýnist ef til vill ekki viðeigandi, að þær komi á eftir þessu máli, því að þar er víst um engin óþrif að ræða. Jeg veit, að hv. þm. munu hafa veitt því eftirtekt, að í till. frá landbúnaðarnefnd á þskj. 180 er sýnt fram á það í ástæðunum, hversu baðlyfin hafa verið ótrygg undanfarin ár. Hafa komið fram háværar raddir um það víðs vegar af landinu, að gera þurfi gangskör að því að útrýma fjárkláðanum, en til þess er fyrsta leiðin sú, að fá örugg baðlyf. En reynslan hefir sýnt, að þau lyf, sem notuð hafa verið, hafa sum reynst misjafnlega og sum reynst algerlega óhæf til sauðfjárbaðana.

Vil jeg nú minnast á nokkur atriði, sem nauðsynlegt er að athuguð sjeu.

1. Rannsókn á baðlyfjum.

2. Undirbúningur undir framkvæmd málsins.

3. Fjárhagslega hliðin.

4. Framkvæmdin.

Um 1. er það að segja, að rannsókn á baðlyfjum hefir verið altof lítil til þessa. Nú á seinni árum hefir landsstjórnin sýnt viðleitni í þá átt að halda niðri fjárkláðanum, og hefir það borið misjafnan árangur. Það er einsætt, að útrýming hans verður aldrei gerð trygg, nema baðlyf þau, sem notuð eru, sjeu ósvikin og hæf á allan hátt. Þetta atriði hefir landsstjórnin of lítið tekið til greina, en þó látið rannsaka eina tegund, og hefir Gísli Guðmundsson gerlafræðingur gert það. Við þá rannsókn kom það í ljós, að annað sýnishornið reyndist með rjettum efnasamböndum og gerði tilætluð áhrif, að drepa maurinn, en hitt sýnishornið, sem var þó frá sama verslunarhúsi og merkt eins og hitt, hafði helmingi veikari efnablöndu og drap alls ekki maurinn. Hafa þessar rannsóknir sýnt það, að baðlyfin hafa verið meira eða minna svikin og óhæf til böðunar. Hafa afleiðingar þess líka komið víða fram á landinu, og skal jeg aðeins benda á tvö dæmi.

Landsstjórnin hafði í fyrra gert ráðstafanir til þess, að tvíböðun færi fram í sumum hjeruðum á grunsömu fje. Þar sem þetta var framkvæmt, varð árangurinn sá, að minsta kosti sumstaðar, að kláðinn var meiri og verri en hann hafði verið nokkru sinni áður, og hlýtur þetta aðallega að stafa af baðlyfjunum, enda þótt eftirlitinu geti verið eitthvað um að kenna. Enn fremur kom það fyrir nú í vetur hjá eftirlitsmanninum í Austur-Húnavatnssýslu, að 15 dögum eftir að hann hafði baðað kom upp kláði í fje hans, og hafði þó kláðaskoðun farið fram á undan böðuninni. Það er því sýnt, að svo búið má ekki standa lengur, og að nauðsynlegt er að gera gangskör að því að fá hrein og ósvikin baðlyf.

Þá er jeg kominn að 2. atriði málsins, nefnilega að athuga, hvað mikill undirbúningur hefir verið gerður í því. Hann er þá þegar orðinn talsverður. Gísla Guðmundssyni hefir verið falið, jafnframt því að rannsaka þessi baðlyf, að gera ýmsar tilraunir þessu viðvíkjandi. Hefir hann verið við þessar rannsóknir, ekki einasta hjer heima, heldur líka um tveggja mánaða skeið á Þýskalandi. Auk þess var hann einnig með, þegar lyfjabúðin hjer um árið bjó til kreólínsbaðið, og kyntist hann því þá til hlítar. Komst hann þá á þá skoðun, að hagur myndi verða að því að stofna hjer innlenda baðlyfjagerð. Gerði hann svo, að undirlagi fyrverandi atvrh. (P. J.), nokkrar tilraunir þessu viðvíkjandi. Tókst honum að rækta kláðamaurinn og gerði svo ýmsar tilraunir um það, hvort baðlyfin væru uppleysanleg og um áhrif þeirra á hörund og ull. Eru þetta alt þýðingarmikil atriði, sem þurfa nákvæmrar rannsóknar, því á þeim verður að byggja við innlenda baðlyfjagerð. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að eftir þessar rannsóknir sínar segir Gísli Guðmundsson í brjefi einu til landbúnaðarnefndarinnar, að áreiðanlega sje hægt að búa til trygg baðlyf innlend, jafngóð eða betri en þau, sem við höfum fengið best frá útlöndum.

Þá kem jeg að 3. atriðinu, sem er fjárhagshlið málsins. Eftir því, sem í fljótu bragði er hægt að sjá, ætti stofnkostnaður við innlenda baðlyfjagerð ekki að fara fram úr 10 þúsundum króna. Þar með eru taldar umbúðir og fleira, sem fyrst í stað yrði að kaupa utanlands frá, þótt síðar mætti máske koma því í peninga. Kostnaður við starfið sjálft yrði ekki ýkjamikill. Duga myndi einn maður, auk eftirlitsmannsins við lyfjagerðina. Yrði ríkissjóður að leggja fram þetta fje, og svo að bíða nokkuð eftir greiðslu á andvirði baðlyfjanna. Nú hefir gerlafræðingurinn talið það alveg víst, að hægt sje að gera baðlyfin ódýrari en þau hafa verið til þessa. Takist það, þá sparast þar fljótt stórfje landsmönnum, og skal jeg skýra það nánar.

Árið 1920 var hjer á landi 579 þúsund sauðfjár. Með því nú að nota 2½% blöndu, býst jeg við, að í alt þetta fje þurfi ekki minna en 45–50 smálestir af baðlyfjum. Ef við reiknum nú hvert kg. 50 aurum ódýrara en áður hefir verið, þá nemur upphæð sú, sem hjer myndi sparast, 20–25 þúsund krónum. Yrði það enn þá ódýrara, svo t. d. hvert kg. yrði 1 krónu lægra í verði, myndi sparnaðurinn nema 80–100 þúsund krónum. Það er því auðsætt, að hjer er um þýðingarmikið fjárhagsspursmál að ræða. Og þegar svo þar við bætist, að lyfin verða væntanlega miklu tryggari en áður, þá liggur í augum uppi, að sjálfsagt er að vinda sem bráðastan bug að þessu.

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að landbúnaðarnefndinni barst fyrir skömmu brjef frá lyfjabúð Reykjavíkur, þar sem hún tekur fram, að hún geti nú selt baðlyfin ódýrara en hún hafi gert hingað til. Hafi hún hingað til selt lítrann í smásölu á 3 krónur, en nú muni hún geta selt hann ásamt umbúðum á kr. 1,40, að minsta kosti ef keypt verði í stórum stíl. Það kemur nú til álita hæstv. stjórnar, hvernig hún vill taka í þetta. Undir öllum kringumstæðum verður tilbúningurinn að vera undir eftirliti stjórnarinnar, og undir ströngu eftirliti. Jeg tek þetta aðeins fram til þess að benda hæstv. stjórn á það.

Þá er annað atriði, sem dýralæknirinn hjer lagði mikla áherslu á. Það er, að Danir, sem einnig hafa fjárkláða á Suður-Jótlandi, eru nú að láta rannsaka þessi efni og gera baðlyf hjá sjer, undir ströngu eftirliti færustu manna sinna. Verði nú hægt að kaupa baðlyfin hjá þeim, jafngóð en ódýrari en þau yrðu tilbúin innanlands, þá sje jeg ekki neitt á móti því, að það verði gert. Og undir eins og dýralæknirinn fær verð á þessum baðlyfjum, sem verður nú með næstu skipum, getur Gísli Guðmundsson ákveðið sagt um það, hvort þau verða gerð ódýrari innanlands.

Þetta hefi jeg tekið fram til þess að draga ekkert undan, sem hæstv. stjórn mætti að gagni koma, til að geta skoðað málið rjettilega og frá öllum hliðum.

Hvað eftirlitið snertir, þá verður það að vera tvennskonar. Fyrst að efnasamsetningin sje sú rjetta. Ríður sjerstaklega á því, að eftirlit efnasamsetningarinnar sje í góðu lagi, og ætlast nefndin til, að Gísli Guðmundsson gerlafræðingur hafi það með höndum. Og í öðru lagi verður að tryggja það, að lögurinn sje uppleysanlegur og skaði hvorki skinnið nje ullina. Og er það dýralæknisins að hafa það eftirlit.

Æskilegt væri, ef þetta mál gæti komið svo fljótt til framkvæmda, að hægt væri að nota þessi nýju böð þegar á næsta hausti, hvort sem baðlyfin verða keypt af Dönum eða lyfjabúðin hjer heima býr þau til, eða ríkið lætur búa þau til. Best væri þá að byrja á útrýmingarböðunum. En hæpið er, að þetta komist svo fljótt í kring, þótt landbúnaðarnefndin telji það mjög æskilegt. En þó vill hún engan veginn að hrapað sje að því, nema allur undirbúningur sje fulltryggur. En það stendur nefnilega svo á nú, að mjög haganlegt væri, ef þetta mætti takast. Eftir þennan góða vetur má vænta þess, að heyfyrningar verði almennar, og fengjum við gott sumar og góðan heyfeng, yrðu bændur sjerlega vel undir það búnir, að útrýmingarböðun yrði framkvæmd á næsta vetri.

Þá þarf einnig að undirbúa þá menn, sem eftirlit eiga að hafa með böðunum. Er mikið í húfi, að það sje gott, og yrði væntanlega ráðlegast að haga útvalningu þeirra manna, sem það hefðu á hendi, svo, að sýslunefnd hverrar sýslu velji eða bendi á hæfa menn til að kynna sjer það, sem með þarf í þessu efni. Gæti dýralæknirinn í hverjum landsfjórðungi kent þeim það, sem með þyrfti til eftirlitsins.

Eitt er það svo, sem jeg vildi gjarna minnast á, til þess að stjórnin taki það til athugunar, en það er, að hve miklu leyti bændur og fjáreigendur eigi að kosta útrýmingarböðin. Síðast var það svo, að ríkissjóður kostaði þau að mestu leyti. Hann kostaði bæði lyfin og eftirlitið, en bændur aðeins aðstoð við böðin og flutning baðlyfjanna og áhalda. Nú hafa komið fram skeyti frá sýslunefndinni í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem lögð er áhersla á, að útrýmingarböðun byrji sem fyrst, og í öðru lagi stungið upp á því, að bændur og fjáreigendur kosti sjálfir baðlyfin. Þykir mjer þetta mjög eðlilegt, því að fjáreigendur munu orðið vita, hvað fjárkláðinn kostar þá, og vilja flest til vinna að losna við hann. Jeg tel það trygt, að þetta verði svo, og eftirlitið í höndum stjórnarinnar. Og takist þetta höndulega, þá er ekki vonlaust um, að enn takist að miklu leyti að losna við þennan forna fjanda íslenska landbúnaðarins.

Í niðurlagi greinargerðarinnar fyrir till. þessari er talað um það, að ef þetta verði og innlend baðlyfjagerð komist í framkvæmd, þá verði stjórnin að semja bráðabirgðalög, þar sem ríkið taki að sjer einkasölu á baðlyfjum. Það getur nú verið, að sumir fallist ekki á þetta, sökum þess, að þar sje um ríkisrekstur að ræða. En jeg vil benda á það, að hjer er aðalatriðið aðeins þetta, að landsmenn hafi sem mest gagn af þessu, og í öðru lagi, að kostnaður verði sem minstur fyrir þá. Ætti slíkt fyrirkomulagsatriði ekki að verða mönnum neinn þyrnir í augum. En auðvitað kemur ekki til þess, að þessi leið verði farin, ef stjórninni fyndist hagkvæmara að kaupa baðlyfin af Dönum eða lyfjabúðinni hjer.

Að öðru leyti vil jeg ekki ráða stjórninni til neins annars en að rannsaka málið sem rækilegast og njóta þar við hjálpar Gísla Guðmundssonar gerlafræðings.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. deild taki þessu vel og sje ekki vantrúuð á góðan árangur málsins.

*) Skaðabótamál A. L. Petersens.