19.04.1922
Efri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (1800)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Þingsályktunartillaga þessi var borin fram í Nd. og samþykt þar, og er því hjer komin. Fylgdi till. frá hv. Nd. allítarleg greinargerð, og get jeg fullkomlega verið henni samþykkur. Er mjer vel kunnugt um það í mínu hjeraði, að ýms baðlyf hafa verið notuð, með misjöfnum árangri. Hefir það eigi verið meðferðinni að kenna, því sömu mennirnir hafa notað þessi lyf með ólíkum árangri. Er það að mínu viti mjög nauðsynlegt að fá áreiðanleg baðlyf, og enn fremur ef unt er eftir reynsluna að nota þetta baðlyf sem þrifabað og einnig til útrýmingar fjárkláða. Er einnig á það lítandi, að góð og örugg baðlyf verða í rauninni ódýrust, en hin vondu langsamlega dýrust. Má og gera sjer í hugarlund, að innlendu baðlyfin kunni að verða ódýrari en sum hinna útlendu. Er vitanlegt, að nái till. fram að ganga, þá tekur landsstjórnin sjerfróðan mann, innlendan eða erlendan, sjer til aðstoðar. Er ekki vert að fara neitt hratt að þessu máli, heldur feta sig áfram, uns góðum árangri er náð.

Fyrir hönd nefndarinnar leyfi jeg mjer að mæla með því, að hv. deild samþykki till.