22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (1806)

88. mál, saga Alþingis

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Þetta „prógram“ fyrir Alþingissögunni, sem jeg gerði í framsöguræðu minni, er aðeins lauslegar hugleiðingar mínar. Jeg er ekki sá sagnfræðingur, að jeg ætlist til, að það litla, sem jeg hefi um málið að segja, verði álitið sem goðsvar við því, hvernig starf þetta yrði rekið. Viðvíkjandi kostnaðinum erum við flm. ekki fróðari en aðrir, því að hann verður tæpast af neinum ákveðinn fyrirfram, eða áætlun gerð, sem byggja megi á, enda mun hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) ekki hafa spurt með það fyrir augum.

Nei, spurningin er þessi: Vill þingið láta skrifa sögu Alþingis, og hvað vill það hafa hana ítarlega?

Hitt er stjórnarinnar og ráðunauta hennar, að ákveða, hvað langt sje gengið. Við þurfum hvort sem er að fá sögu þjóðarinnar skráða og höfum nú um nokkur ár lagt dálítið fje til þess. Til þess hefir einn maður fengið styrk, en honum er það ofvaxið að ljúka því verki einum, og kemst að líkindum tæplega út þjóðveldistímabilið.

Fyrir mjer hefir ekki vakað, að fjöldi manna ynni að riti þessu, heldur að stjórnin gæti kvatt sjer til aðstoðar nú fyrst um sinn fróða menn, sem legðu á ráðin. Einn maður verði látinn vinna verkið aðallega. Seinna sjest betur, hvað mikla aðstoð hann þarf að fá. Till. fer ekki fram á annað en að byrjað sje á undirbúningi ritsins, eða öllu heldur hvernig því muni verða best fyrir komið. Hjer verður því ekki um mikið fje að ræða t. d. á næsta ári, enda hægurinn hjá fyrir þingið sjálft að hafa þar hönd í bagga með.