22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (1811)

88. mál, saga Alþingis

Jón Þorláksson:

Jeg gerði ekki ráð fyrir, að mjer yrði veitt orðið fyr en þeir hv. þm. hefðu talað, sem kvatt höfðu sjer hljóðs á undan mjer. (Forseti B. Sv.: Þeir hafa fallið frá orðinu). Jæja, þá er ekkert við því að segja.

Eins og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram, þá finst mjer það ekki ósanngjarnt að ætlast til þess, að hv. flm. gerðu einhverja grein fyrir því, hve mikið fje þeir hugsuðu sjer að lagt yrði í afmælisrit þetta. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til, að þeir geti um þetta sagt af eigin viti, en þeir hefðu getað borið sig saman við sjerfróða menn í þessu efni. Ef ráðast á í þetta fyrirtæki, þá verður að kveðja til sagnfróða menn og láta þá gera till. um stærð verksins og kostnað við það. Um slíkt ættu þeir menn að geta gert eins nákvæma áætlun og aðrir sjerfræðingar um verk, er undir þeirra verksvið heyra. Þessi aðferð er heldur alls ekki óvenjuleg, því að oft verða rithöfundar að ákveða fyrirfram, hve stórt það verk eigi að vera, sem þeir ætla sjer að semja.

Slíka áætlun hafa hv. flm. alls ekki gert, og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir jafnvel ekki talið slíkt nauðsynlegt fyr en á næsta þingi. En ef sú er meiningin, þá er till. að minsta kosti ekki orðuð í samræmi við þá hugsun. Það hefði þá átt að koma fram í till., að næsta þing hefði óbundnar hendur um ákvörðun á stærð og tilhögun verksins, en stjórnin legði fram tillögur um þetta. Það væri rjetta leiðin, enda býst jeg við að koma fram með brtt. í þá átt við síðari umr.

Það má ef til vill segja, að undarlegt sje, að þingið skuli þurfa að gera sjerstakar ráðstafanir til þess að semja þetta verk, þar sem landið hefir í þjónustu sinni nærfelt alla þá menn, sem færir eru í þessum fræðum, og tvo menn beinlínis til þess að rannsaka og rita um sögu landsins. Er annar þeirra háskólakennari, en hinn starfsmaður við þjóðskjalasafnið. Þó skal jeg ekki um það staðhæfa, nema eitthvað dálítið fje þurfi að greiða sjerstaklega til þessa starfs. En meginstarfið ætti að geta fallið undir verkahring þessara tveggja manna, sem jeg hefi minst á.