22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (1812)

88. mál, saga Alþingis

Bjarni Jónsson:

Jeg vil byrja á því að þakka hv. flm. till. fyrir að hafa komið hjer fram með þetta mál. Legg jeg alt kapp á, að þetta verk geti farið myndarlega úr hendi, og mun ekki greiða atkv. á móti því, þótt það yrði dálítið myndarlegt og kostaði nokkurt fje.

Það er um þessi störf eins og hver önnur, að ekki er hægt að skylda neina menn til þess að taka þau að sjer fyrir ekki neitt. Hygg jeg, satt að segja, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) haldi því ekki fram í alvöru, að neinir menn eigi að vinna að þessari sagnaritun kauplaust. En hitt hygg jeg, að þessir menn muni fúsir að vinna að þessu verki án þess að mjög mikið fje komi í móti, en auðvitað verður ríkið að greiða ferðir til útlanda til þess að rannsaka þar ýms heimildarrit, og auk þess útgáfu ritsins.

Við hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) erum ásáttir um það, að fleiri en tvo menn þurfi til þess að vinna þetta verk. En það, sem mjer þykir vænst um, er, að hv. flm. hafa hrundið þessu máli fram nú, því það er jafnvel þegar komið í eindaga. Ef vinna á verkið á stuttum tíma, þá þarf til þess marga menn, er setja verður beinlínis á árslaun. En ef nú þegar verður hafist handa, þá er það víst, að verkið verður margfalt ódýrara, því þá geta fræðimenn bætt því á sig sem aukastörfum. Býst jeg við því, að enginn þm. geti verið á móti því, að þetta verk sje unnið, eða svo sparsamur, að hann horfi í að verja nauðsynlegu fje til þess, að verkið geti orðið þjóð og þingi til sóma.

Hjer er um það að ræða að vita, hvernig vald og vilji þjóðarinnar hefir birst í 1000 ár, og hygg jeg, að enginn muni vilja, að slíkt starf sje haft að vikaverki eða kastað verði til þess höndum, heldur ættu hjer að safnast saman allur lærdómur, öll skarpskygni, elja og samviskusemi fróðustu manna þjóðarinnar. Hygg jeg mig svo þekkja höfðingskap þessarar þjóðar, að hún muni ekki telja eftir fje til þess, að þetta verk verði sómasamlega af hendi leyst.

Jeg skil hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vel, þar sem hann vill fá skýrslu um það, hve miklu fje eigi til þessa að verja. En um það er ekki auðvelt að segja nú. Hygg jeg þó, að það muni vart fara fram úr 5–10 þúsundum. En auðvitað finst honum varhugavert að trúa þeirri stjórn fyrir málinu, sem hann ekki styður. (M. G.: Hve nær hefi jeg sagt, að jeg væri ekki stuðningsmaður núverandi stjórnar?). Nú jæja. Má jeg óska hæstv. stjórn til hamingju með hinn nýja stuðningsmann, og biðja hv. þm. (M. G.) afsökunar á orðum mínum.

Annars hygg jeg, að engin hætta sje að trúa stjórninni fyrir framkvæmdum þál., og treysti jeg henni til þess að hefjast handa til undirbúnings þessu ágæta máli.

Jeg er algerlega samþykkur hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um ráðstafanir í þessu máli. Tel jeg sjálfsagt að leita til sjerfræðinga í þessum efnum og heyra till. þeirra um stærð og kostnað verksins. Jeg hygg, að nóg sje, að Alþingi láti stjórnina vita, að það óski, að verkið verði unnið á vísindalegan hátt. En það, sem svo stjórnin ákveður, tel jeg ekki geta heyrt undir atkvæði Alþingis, því það er ekki bær dómari í þeim efnum, heldur hinir sjerfróðu menn, sem till. gera um málið.

Jeg hygg, að engin hætta geti á því verið, að þetta verk verði sjerlega dýrt. Alþingi hefir þegar unnið talsvert að þessu verki með útgáfu Alþingisbókanna, og enn fremur munu ýmsir sjerfræðingar, sem nú eru í þjónustu landsins, vinna mikið að verkinu án sjerstakrar borgunar, ekki síst ef tíminn er langur til stefnu. Skil jeg því ekki, að nokkur hv. þm. geti haft á móti þessu verki. Það er sjálfsagt að vinna verkið og hefja það nú þegar, þar við liggur sómi þings og þjóðar.

Jeg vona, að engin brtt. komi fram, hvorki frá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) nje hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), því að jeg tel till. besta eins og hún er.