22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (1816)

88. mál, saga Alþingis

Jón Þorláksson:

Brtt. á þskj. 280 er ekki komin fram af óvild til þessa máls, heldur þvert á móti, enda skilst mjer, að hún sje í samræmi við það, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagðist hafa hugsað sjer um gang málsins.

Í brtt. okkar er ætlast til, að byrjað verði með því, að sögufróðir menn ákveði, hvaða skipulag þeir vilja hafa á þessu verki, og að hæstv. stjórn síðan leggi fram frv. fyrir næsta Alþingi eftir till. þeirra. Okkur flm. brtt. hefir ekki þótt rjett að svifta þingið alveg ákvörðunarrjettinum um tilhögun ritsins. Jeg er að vísu ekki svo fróður um þessi efni, að jeg geti gert áætlun um slíkt rit, en jeg get samt bent á, að ágreiningur getur orðið um, hvort það eigi að vera sögulegt heimildarrit, safn til ítarlegrar sögu, eða aðeins læsilegt yfirlit yfir sögu Alþingis.

Um þetta ætti þingið að taka ákvörðun eftir að stjórnin hefði undirbúið málið sem best. Get jeg ekki sjeð, að það geti orðið málinu nokkuð til hnekkis, þótt þetta dragist til næsta þings.

Vona jeg, að hv. deildarmenn fallist á þessa brtt.