22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (1818)

88. mál, saga Alþingis

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fara nokkuð gálauslega með orð mín. Jeg sagði aldrei, að sjerfræðingarnir ættu að ákveða kostnað verksins, en jeg kvaðst sammála hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um það, að stjórninni bæri að leita til sjerfræðinga um fyrirkomulagið og framkvæmdir.

Þá virtist sama hv. þm. (M. G.) það stríða gegn heilbrigðri skynsemi, að verkið yrði ódýrara ef það væri unnið á löngum tíma. En jeg verð þá að segja, að ekki er skynsemi hans eins heilbrigð og jeg hjelt, ef þetta stangast mjög fast við hana. Ef þeir, sem nefndir voru í dag og með rjettu eiga að vinna verkið eða nokkra hluta þess, þá verða þeir að hafa nægan tíma fyrir sjer, til þess að geta leyst það ódýrt af hendi jafnframt skyldustörfum sínum. En ef tíminn er svo stuttur, að þeir geta ekki annað því án þess að fara úr embætti, þá verður það dýrara. Þetta veit jeg að hann skilur eins vel og jeg, því að hann hefir verið fjármálaráðherra og hafði þá lag á að halda utan að aurunum.

Jeg veit ekki, hvort hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) var viðstaddur ræðu mína í dag. Jeg svaraði því, að jeg teldi Alþingi engan sjerfræðing í vísindalegum störfum. Því hygg jeg betra að trúa hæstv. stjórn fyrir þessu, með aðstoð og samráði sjerfróðra manna. Þó tel jeg sjálfsagt, að þetta komi undir atkv. Alþingis; að minsta kosti á það að ráða, hve miklu það vill kosta til. Gæti þá að vísu farið svo, að ekkert yrði úr verkinu, því að enginn fræðimaður mundi vilja vinna það, ef það ætti að verða til smánar. En jeg veit, að þjóðin vill ekki skera fje til þessa svo við neglur sjer, að eigi geti skammlaust orðið, og jeg vona, að þingið verði sama sinnis.

Það, sem á milli ber, er því það, að flm. brtt. vilja ekki láta fara að vinna nú þegar, heldur láta stjórnina gera tillögur fyrir næsta þing. Jeg skil nú ekki, hví ætti að fresta þessu til þess að láta þingið dæma í því, sem það er ekki dómbært um, enda væri altaf hægurinn hjá að taka í taumana á næsta þingi, ef til óefnis horfði. Það eina, sem eftir er, væri þá óttinn við óhófseyðslu stjórnarinnar á þessu eina ári. En sá ótti er ástæðulaus. Stjórnir eru jafnan íhaldssamar um slíka hluti, enda er þeim kunnur sá strengur, er liggur milli hjartans og buddunnar.

Vitanlega er ekki hægt að segja fyrirfram, hvað verkið muni kosta. Heimildir geta legið erlendis, sem þarf að rannsaka, en það veit enginn um fyr en kannað er efnið. En þetta er ekkert einsdæmi eða óvanalegt. Það er einmitt sjaldnast hægt að segja um, hvað verk muni kosta, þegar á þeim er byrjað.

Annars er mjer satt að segja alveg óskiljanleg þessi löngun til þess að stöðva þetta verk eða tefja það. Jeg vona því, að hv. deild felli þessa brtt., en till. fái að ganga fram óbreytt.