22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (1819)

88. mál, saga Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Hv. flm. (Þorst. J.) vildi skýra heimild þá til fjárútláta, sem í till. felst, á alt annan hátt en venja er til, og eftir ræðu hans hefði verið eðlilegast, að hann gengi inn á brtt. Jeg vil ekki neita um heimild til þess að greiða fje, ef þarf, en jeg vil ekki samþykkja greiðsluheimild alveg út í bláinn. En það tel jeg vera, þegar jeg get ekki togað neitt svar um kostnaðinn upp úr hv. flm. (Þorst. J.), og það enda þótt jeg hafi gefið honum svigrúm um 25 þús. kr.

Jeg fjekk svo gott skynsemisvottorð hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að jeg þarf víst ekki að svara honum mörgu. Þó get jeg ekki stilt mig um að benda honum á, að kostnaðurinn af þessu verki verður nokkuð mikill, ef leita á alstaðar í erlendum söfnum að sögnum um Alþingi. Og ekki trúi jeg fyr en jeg tek á, að hv. deild samþykki þessa till. óbreytta, að fengnum þessum ummælum, því þau sýna, að verk þetta kostar stórfje.