22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1824)

88. mál, saga Alþingis

Jón Þorláksson:

Það er ekki aðalatriðið fyrir mjer, að jeg sje hræddur um, að verkið verði of kostnaðarsamt, heldur að það yrði í því sniði, sem þingi og þjóð yrði ógeðfelt. Það getur orðið á margan hátt.

Hv. þm. Dala. (B. J.) mintist á afmælisrit ýmsra fjelaga. En jeg verð að segja það, að sum þeirra rita eru svo ómerkileg, að þau borga alls ekki prentsvertuna. Gæti jeg þar sem dæmi nefnt 50 ára afmælisrit Þjóðvinafjelagsins, sem borið var heim til mín hjerna á dögunum. Langar mig síst til þess, að 1000 ára afmælisrit þingsins verði slíkt ljettmeti. Auk þess tel jeg, að ef ákvörðunarrjetturinn um þetta er tekinn úr höndum þingsins sjálfs, þá sje óviðeigandi að fela hann öðrum en forsetum þingsins.