28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Stefánsson:

Jeg gleymdi áðan að minnast á brtt. frá mjer á þskj. 157 við 16. gr. 4 a. um laun garðyrkjustjóra. Embætti þetta mun hafa verið sett á stofn árið 1919, og hefi jeg fyrir satt, að það sje eitt hið allra óþarfasta á öllu landinu.

Mjer er sagt, að til sje fjelag, sem nefnist Garðyrkjufjelag; hefir ekkert borið á því fyr en árið 1919 og lítið síðan. Mun hlutaðeigandi vinna fyrir það fjelag. Búnaðarfjelagið hefir garðyrkjufróðan mann í sinni þjónustu, og þá jafnframt í þjónustu landsins, og var mjer vitanlega enginn óánægður með þá tilhögun. Hjer er þá verið að hálauna mann, sem lítið verk hefir með höndum. Jeg hefi að vísu heyrt, að hann hafi ferðast eitthvað suður með sjó og til Austfjarða, og hafi gefið skýrslur um þá staði, sem hann kom á, en eins hina þar sem hann aldrei kom. Er þá lítt hægt að henda reiður á slíku. Tel jeg sjálfsagt, að sá maður gefi þeim, er þess óska, upplýsingar um garðrækt. Jeg varð hissa er þetta embætti var stofnað 1919, því Búnaðarfjelagið hafði og átti að hafa þetta mál með höndum. Laun þessa manns eru nú 6000 kr., og leggur nefndin til, að þau sjeu lækkuð í 3500 kr., sem virðist nægileg og enda of há upphæð til ekki þarfara embættis.

Þá ætla jeg aðeins að víkja fáum orðum að brtt. XXIII frá háttv. þm. Ak. (M. K.), um bryggjugerð á Eyrarbakka og í Ólafsfirði. Er jeg henni í raun og veru ekki mótfallinn, og hefði háttv. deild þótt ráðlegt að samþykkja till. sparnaðarnefndar, hefðum við haft nóg fje fyrir hendi til þessara mannvirkja. En þær eru feldar og verða feldar og þess vegna neyðist jeg til að greiða atkvæði móti þessum fjárveitingum í þetta skifti. Ef væri að ræða um lán, vildi jeg veita það, en jeg hefi ekki fengið neina sönnun fyrir því hjá hæstv. fjármálaráðherra (Magn. J.), að nokkurt fje sje til. Jeg hygg, að hæstv. stjórn hafi ekkert fje handbært, og þá yrði lánsheimild aðeins von, sem ekki getur ræst.

Áður en jeg sest niður skal jeg lýsa því yfir fyrir hönd sparnaðarnefndar, að hún tekur aftur till. sínar á þskj. 153, XIV. lið og sömuleiðis XXII., en ekki XVIII. lið.

Jeg skal taka það fram, að nefndin gerir það ekki af því að hún álíti till. órjettmætar, heldur af því, að hún veit, að þær verða feldar og vill ekki tefja tíma þingsins að óþörfu.