25.04.1922
Efri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (1833)

88. mál, saga Alþingis

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Í fjarveru forsætisráðherra (S. E.) verð jeg að segja nokkur orð um þetta mál. Stjórnin lítur svo á, að hjer sje aðeins heimild handa stjórninni, sem um er að ræða. Að vísu má hún verja fje til þessa verks, en þó eingöngu til undirbúnings, og ef til vill lítils háttar byrjunar. Mjer skildist hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) leggja nokkuð mikið inn í þessa heimild, er hann var að tala um mannfjölda, sem stjórnin þyrfti að taka, og stærð ritverksins. Hann gætti þess ekki, að hjer er aðeins um undirbúning og byrjun að ræða. Og þótt unnið yrði í þau 8 ár, fram að 1930, geri jeg ekki ráð fyrir, að saga Alþingis yrði tæmd í því verki. Það yrði ekki og gæti ekki orðið saga, sem tæki síðasta orðið í þessu efni, því ávalt má bæta nýju við og skýra það, sem óljóst er; það starf stendur hverjum fræðimanni opið, eins eftir 1930 sem fyrir.

Í þeirri heimild, sem aðaltill. felur í sjer, er engin mótsögn við brtt., sem fram hefir komið. Jeg geng að því sem sjálfsögðu, að þótt stjórninni væri falin þessi heimild, þá mundi hún fyrst og fremst snúa sjer til forsetanna og vinna í sambandi við þá.

Það er rjett, að stjórnin getur ekki gefið upp ákveðna fjárupphæð, sem verkið mundi kosta, frekar en aðrir, nú sem stendur. Hún veit ekki, hvað dýrir þeir menn kynnu að verða, sem fengjust.

Saga Alþingis nær yfir mjög margvíslega og óskylda sögu. Alþingi er aðeins sameiginlegt nafn, sem felur mjög sundurleitar hugmyndir í sjer, sem ekki eru sambærilegar á hinum ýmsu tímum. Liggur í augum uppi, að saga Alþingis yrði fyrst og fremst að skiftast í 3 alveg sjerstök tímabil. Í fyrsta lagi tíminn fram til 1800 í ýmsum undirdeildum (t. d. 930–1262, 1262–1660, 1660–1800). Svo ráðgjafarþingið, sem ekki á annað sameiginlegt hinu forna Alþingi en nafnið, og síðan loks löggjafarþingið, sem er eins fjarskylt ráðgjafarþinginu. Þar að auki hefst í raun og veru nýtt tímabil í sögu Alþingis árið 1918; með fullveldinu viðurkendu gerbreytist starfssvið og öll aðstaða þingsins. Sjá því allir, að Alþingi er yfirgripsmikið orð og mikið um það að skrifa. Ef því nokkur vísindastarfsemi á hjer að eiga sjer stað, en ekki aðeins gefið yfirlit, þá sjá allir, að tíminn er ekki of langur til verksins, þótt þegar í stað væri hafinn undirbúningur. En eins og jeg áður hefi tekið fram, felur aðaltill. enga andstæðu í sjer við brtt., því að stjórnin mun nota heimildina í samvinnu við forseta Alþingis.