25.04.1922
Efri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (1835)

88. mál, saga Alþingis

Guðmundur Björnson:

Jeg vil ekki gera það að kappsmáli, hvor þessara till. verður samþykt. Jeg vil aðeins lýsa yfir því, að áður en málið kom hjer fram höfðum við talað um það forsetarnir, og okkur var það ljóst, að okkur bæri að hefja þennan undirbúning ef þingið sjálft gerði ekki ráðstafanir í þá átt. Hjer er að ræða um heiður þjóðarinnar. Hjer er að ræða um þann dásamlega menningarvott Íslendinga, að við eigum kost á að halda hátíðlegt 1000 ára afmæli Alþingis árið 1930. Jeg veit ekki til, að aðrar þjóðir geti hrósað sjer af nokkru þvílíku.

Jeg er samdóma hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) um það, að hjer sje um innanþingsmál að ræða. Jeg sje ekki betur. Og af þessari ástæðu höfum við forsetarnir talað um málið, og við hefðum hreyft undirbúningi þess, þó að ekkert hefði verið á það minst á þessu þingi og við enga áskorun fengið. Ef við hefðum ekki sjeð okkur fært að framkvæma þennan undirbúning án þess að verja fje í því skyni, þá hefðum við óhikað gert það, því forsetar hafa leyfi til slíks, ef gagn eða sómi þingsins er í veði. Jeg get vel unað því, að stjórninni sje falið þetta mál, en jeg get ekki unað því, að báðar þessar till. verði feldar. Jeg vænti þess, að þingið sýni ótvíræðan vilja sinn á því, að verkið verði unnið. Jeg get ekki fallist á það, að óhætt sje að fresta málinu; tíminn, sem til stefnu er, er síst of langur, því verkið er mikið og vandasamt, og því tel jeg ekki rjett að girða fyrir það, að hægt sje að verja fje nú þegar til undirbúnings.

Hv. þm. (S. H. K.) bar fram nokkrar spurningar, sem hann beindi þó aðallega til hæstv. stjórnar. Hann spurðist fyrir um það, hverjir ættu að vinna verkið og hvernig því skyldi haga. Vel. Jeg er ekki reiðubúinn til þess að svara þessu fyrir hönd okkar forsetanna, það er svo stutt síðan málið kom á döfina, en jeg get sagt hv. þm. (S. H. K.), hvernig jeg hefi hugsað mjer þetta. Jeg hefi hugsað mjer, að til verksins verði fengnir okkar bestu sagnfræðingar, ekki 7, heldur 3–4. Og jeg hefi ekki hugsað mjer heila bókahillu, heldur svo sem tvö væn bindi. Það er satt, að hjer er um ólík viðfangsefni að ræða. Það er verkefni út af fyrir sig að skrifa þingsöguna þar til þjóðveldið leið undir lok, 1264, og það hefir að nokkru leyti verið gert af próf. Einari Arnórssyni. Þá er næsta viðfangsefnið: þingsagan þar til einveldi komst á, 1662. Næsti kafli ætti að ná til þess, er Alþingi er lagt niður, árið 1800. Þá er saga ráðgjafarþingsins og loks 5. kaflinn, saga löggjafarþingsins. Þannig mætti haga verkinu, eða svo hefi jeg hugsað mjer það, og þetta er vitanlega ekki eins manns meðfæri.

Jeg vil svo enda mál mitt á því, að við forsetarnir hefðum tekið málið upp, þó að þingið hefði ekki hreyft því, en ef þingið fellir þessa till. og lætur þannig í ljós vilja sinn gegn þessu máli, þá er vitanlega útilokað, að við forsetarnir getum nokkuð í því gert.