06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (1847)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Frsm. (Bjarni Jónsson):

„Jeg er nú svo gamall sem á grönum má sjá, og hefi þó aldrei sjeð jafnlangan gaur í jafnlítilli grýtu“. Og þó þykir mjer það undarlegast, er forvörður allra kennara reynir að flækja málið, og drepa þannig niður vonir þessa fyrverandi stjettarbróður síns. Jeg man þó til þess, er verið var að setja þessi lög um skipun barnakennara og laun þeirra, að þá barðist þessi hv. þm. (Þorst. J.) fyrir því, að enga mætti skipa kennara aðra en þá, sem tekið hefðu kennarapróf, en þó varð það að samkomulagi, að gamlir kennarar skyldu ekki verða hraktir burtu. Og öll var nú ræða þessa hv. þm. (Þorst. J.) heldur kyndug. Byrjaði hann á því að telja ófært að segja stjórninni að rannsaka málið, en endaði á því að leggja til, að því yrði vísað til stjórnarinnar. Og til hvers á að vísa því til stjórnarinnar? Til þess að hún setjist á það? Ef svo er ekki, þá er það til þess sama sem þingsályktunartillagan fer fram á.