06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (1850)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Þorsteinn Jónsson:

Jeg gat nú raunar ekki sjeð, að orð mín þyrftu að vekja mikla reiði hjá hv. frsm. (B. J.). Jeg ætlaði mjer á engan hátt að skaða þennan mann, sem um er rætt. En jeg hefði talið það langt um betra fyrir hann, að fjárveitinganefnd hefði ekki dregið hann hjer inn í umræður, heldur aðeins skrifað stjórninni álit sitt á þessu máli og beðið hana að rannsaka það.

Jeg hefi engan dóm lagt á það, hvort hæstv. fyrv. stjórn hefir breytt rjett gagnvart þessum manni eða ekki. Þinginu hefir ekki borist nema álit annars málsaðilja, og meðan er málið ekki nema hálfsjeð.

Jeg sje því ekkert á móti því að vísa málinu til stjórnarinnar, og getur hún þá rjett hluta þess manns, ef henni finst, að hann hafi verið röngu beittur. Getur stjórnin það með því að setja hann í kennarastöðu.