06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (1853)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Hákon Kristófersson:

Hæstv. forsætisráðherra (S. E.) tók það fram, að ekki væri fylgt föstum reglum um embættaveitingar. Þessi ummæli þóttu mjer einkennileg, af því hann hefir sagt við mig „prívat“, að það væri einmitt farið eftir ákveðnum reglum. Jeg vildi því spyrja hæstv. forsrh. (S. E.), hvort hann hafi beinlínis skift skoðun í þessu efni, því jeg veit, að hann hefir hingað til í embættaveitingum farið eftir aldri, en ekki verðleikum. Og er það langt frá mjer að ásaka hann fyrir það, að veita elsta umsækjanda. Aðeins vildi jeg slá því föstu, að sá skilningur hæstv. forsrh. (S. E.), að ekki sje jafnaðarlega tekið tillit til aldurs að öðru jöfnu, er að mínu viti alveg nýr. Því vildi jeg framtíðarinnar vegna vekja athygli á því, að hæstv. forsrh. (S. E.) hefir bæði sagt mjer, að þessari reglu væri fylgt, og eins haldið uppi vörnum fyrir að mínu áliti óforsvaranlegum embættaveitingum, einungis með það fyrir augum, að umsækjandi var gamall. Því skal jeg þó ekki móti mæla, að slíkt getur verið mesta óhæfa og þjóðfjelaginu til skaðræðis; það sýna dæmin.

Hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) sló því fram, að það væri misráðið af fjárveitinganefnd að draga þennan kennara inn í opinberar umræður. Jeg lít öðruvísi á það mál, og sýnist mjer fjvn. hafa í alla staði komið sómasamlega fram. Jeg hygg, að það vaki fyrir fjárveitinganefnd, að stjórnin rannsaki málið og setji þennan mann aftur inn í sína fyrri sýslan, ef kvartanir hans reynast á rökum bygðar. Og jeg hygg, að svo muni vera, úr því foreldrar, börn og fræðslunefnd. eru öll óánægð yfir þessari stjórnarráðstöfun. Það sýnist svo, að eini ókosturinn við þennan mann sje sá, að hann er ekki sloppinn út úr kennaraskólanum.