29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1923

Sveinn Ólafsson:

Það var háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.), sem gaf mjer tilefni til þess að kveðja mjer hljóðs af nýju. Hann ljet svo ummælt, að till. okkar háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) spilti fyrir málinu með því að staðbinda ullariðjufyrirtækið eystra. Aftur sagði hann, að jeg hefði látið á mjer skilja, að till. þeirra þm. Norðmýlinga (B. H. og Þorst. J.) væri fram komin í því skyni að eyða málinu, en þetta er ekki rjett hermt. Jeg sagði einmitt, að hún mundi fram borin af velvild til málsins, — en af misskilinni velvild. Og eftir því, sem jeg hefi betur hugsað þetta, því fremur hefi jeg sannfærst um það, að þetta er rjett hjá mjer. Jeg hefi því farið fram á það við háttv. flm., að þeir tækju aftur brtt., en háttv. þm. (B. H.) gaf þau svör, að þeir sæju sjer ekki fært að gera það. Jeg verð því að biðja þá háttv. þingdm., sem hlyntir eru þessu máli, að fella þessa einkennilegu fleygtillögu þeirra.

Hitt, sem háttv. þm. (B. H.) beindi til háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), að hann hefði spilt málinu með því að gerast meðflutningsmaður minn að till., er mjer harla torskilið, þar sem háttv. þm. N.-M. hafa tekið upp till. okkar háttv. 1. þm. Árn. orðrjetta og gert hana að sinni tillögu, — aðeins með úrfellingu svigaorðsins „Reyðarfirði“ fyrir austfirsku verksmiðjuna. En eins og jeg sagði áðan, er hjer um að ræða einhvern misskilning eða misskilda velvild til málsins hjá háttv. þm. (B. H. og Þorst.J.). Það er reyndar ekki mikið, sem ber á milli okkar háttv. þm. Norðmýlinga og mín. Þeir vilja hafa verksmiðjuna sem næst sjer, og er það eigi undarlegt.

Að vísu skal jeg viðurkenna það, að á Seyðisfirði eru sæmilega góð skilyrði fyrir hendi til þessa iðnrekstrar, en þó ekki betri en á syðri fjörðunum, nema síður sje. Vatn það á Seyðisfirði, sem hentugast er til virkjunar, er í höndum erlends verslunarfjelags, og getur slíkt ekki annað talist en ókostur. En annað ræður þó meiru um, og það er að fjármunir og fólksfjöldi er mikið meiri á suðurfjörðunum, og það ríður baggamuninn. Fólksfjöldi í Múlaþingi mun vera rúmlega 10 þúsund, að Austur-Skaftafellssýslu meðtalinni, sem vafalaust mun öll hverfa að þessu fyrirtæki, ef miðað er við Reyðarfjörð, en meira en þriðjungur þessa mannfjölda býr við Reyðarfjörð og í nærsveitum hans, Fáskrúðsfirði og Norðfirði. Auk þess er það fyrirfram vitað, að allmikill hluti Norðmýlinga mun einnig hverfa að þessu fyrirtæki, ef stofnsett verður á Reyðarfirði.

Þá vil jeg geta þess um undirbúning þessa fyrirtækis á Reyðarfirði, umfram það, sem jeg hefi áður sagt, að landsstjórnin hefir eftir ósk þessa reyðfirska fjelags — og fyrirtækið er fyrst og fremst stofnað og styrkt af Reyðfirðingum — gert út mann, sem nú er í utanför, Guðmund Hlíðdal, til að rannsaka kaupskilyrði á vjelum og tækjum til þessa fyrirtækis. Þá hefir stjórnin ennfremur tekið að sjer, eftir tilmælum fjelagsins, að láta gera mælingar og áætlanir um vatnsvirkjunina á Reyðarfirði á komandi vori eða að láta fullgera þá bráðabirgðaáætlun, sem þar hefir verið gerð af Halldóri Guðmundssyni. Verður það gert á komandi vori.

Nokkuð öðru máli er að gegna með samskonar fyrirtæki á Suðurlandi, enda hafa ýmsir háttv. þm. tjáð sig ófúsa til þess að veita lánsheimild handa því, vegna vantandi undirbúnings þar. En jeg hygg þetta vera veigalitla ástæðu. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þeir menn, sem leggja fje sitt í slík fyrirtæki á annað borð, muni ana út í það fyr en þeir hafa rannsakað og gert sjer grein fyrir, hvort fyrirtækið muni bera sig eða ekki. Lánsheimildinni fylgir því engin áhætta fyrir ríkissjóð, síst þar sem lánsupphæðin nemur ekki nema tiltölulega litlum hluta af stofnkostnaðinum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira, en vil þó að lokum endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, að þeir, sem í alvöru vilja styðja innlendan ullariðnað, vona jeg að greiða ekki atkvæði með fleygtillögu hv. þm. N.-M. (B. H. og Þorst.J.), heldur fylgi eindregið till. okkar háttv. 1. þm. Árn. (E. E.). Hún er sú rjetta og upphaflega till. og fram komin eftir sjerstakri umsókn og beiðni til þingsins frá tilteknu fjelagi. Það væri að svara þeirri beiðni út í hött að samþykkja till. þm. N.-M.

Um aðrar brtt. mun jeg sýna afstöðu mína við atkvæðagreiðsluna. Þó vil jeg geta þess um brtt. XVII, að þar mun jeg, beint á móti þeirri reglu, sem jeg hefi annars fylgt, greiða atkvæði með henni, þó ekki horfi hún til sparnaðar. En þau rök liggja til þess, að hjer virðist mjer um að ræða þann mann, er framar flestum, ef eigi öllum, sem styrks njóta til vísindalegra starfa, hafi verðskuldað hann og eitthvað verulegt leggur á sig til þess að vinna fyrir honum.