11.04.1922
Efri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (1861)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Björn Kristjánsson:

Það hefir orðið hlutverk mitt að segja fáein orð um þingsályktunartill. á þskj. 179. Eins og hv. deild veit, er till. borin fram af fjárveitinganefnd Nd. Skjöl, sem að þessu máli lúta, eru þessi:

1. Umsókn hr. Árna Th. Pjeturssonar um 1000 kr. styrk á ári, eða 8000 kr. í eitt skifti fyrir öll, fyrir að hafa mist barnaskólastöðu við skólann á Vatnsleysuströnd, sem hann telur sig hafa verið sviftan að ástæðulausu haustið 1920.

2. Umsókn formanns skólanefndar fyrir hönd nefnds kennara um skólann, með meðmælum skólanefndar.

3. Umsókn Árna sjálfs til skólanefndar.

4. Útdráttur úr fundabók skólanefndar, þar sem hún ákveður að mæla aðeins með kennara þessum.

5. Brjef fræðslumálastjóra, dagsett 8. nóv. 1908, sem heimilar honum að vera kennari við sama skóla, með landssjóðsstyrk, að fengnu samþykki stjórnarráðsins, þótt hann hafi ekki kennarapróf.

6. Vottorð frá prófasti Janusi Jónssyni um barnaprófun.

7. Meðmæli aðstandenda barna þeirra, sem þá voru í skóla hjá Árna og voru 20 að tölu.

8. Vottorð um barnapróf frá Þórði Klemenssyni.

9. Vottorð um hæfileika Árna Th. sem barnakennara, þar á meðal frá síra Árna Þorsteinssyni á Kálfatjörn, síra Sigurði Sivertsen á Útskálum, prófasti Árna Björnssyni í Görðum, Guðmundi Finnbogasyni prófessor og síra Friðriki Hallgrímssyni á Útskálum.

Jeg mun koma að þessum vottorðum síðar.

Kennari þessi skýrir svo frá, að hann hafi verið 30 ár barnakennari, þar af 26 ár við fasta barnaskóla í Miðneshreppi, Njarðvíkurhreppi og Vatnsleysustrandarhreppi.

Hann kendi fyrir afarlág laun fram eftir æfinni, og gat nú fyrst búist við að fá lífvænlega stöðu, ef hann hefði fengið skóla þann, er hann hafði síðast kent við í 9 ár. En í stað þess að fá stöðu þessa var hann sviftur henni og annar settur við skólann í hans stað, þvert ofan í vilja skólanefndar, foreldra og allra hreppsbúa, að einum undanskildum. Hafði þessi setti maður því hvorki meðmæli skólanefndar nje annara skólanefnda.

Tvívegis segist kennarinn hafa skrifað stjórnarráðinu og kvartað yfir þessu, en ekkert svar fengið.

Hann hefir því snúið sjer til Alþingis og væntir sjer hjálpar frá því.

Loks leggur kennarinn fram vottorð sýslumanns síns um, að hann hafi heiðarlegt mannorð og sje í alla staði heiðvirður maður.

Þó að kennari þessi sæki um styrk til þingsins sem sárabætur, þá hefir hann tekið það fram við mig, að hann vildi miklu heldur fá stöðu sína aftur, sem enn þá er óveitt. Þess vegna hefir fjárveitinganefnd Nd. tekið það ráð að leggja til, að málið yrði rannsakað, til þess að hann geti fengið stöðu sína aftur, ef sú rannsókn gefur tilefni til þess. En hvað miklar líkur eru til þess má sjá af vottorðum þeim, sem jeg með leyfi hæstv. forseta vil leyfa mjer að lesa upp. Þau tala betur máli kennarans en jeg get gert.

Fyrsta vottorðið er frá Þórði Klemenssyni og hljóðar þannig:

„Jeg undirskrifaður, sem samkvæmt skipun yfirstjórnar fræðslumálanna var prófdómari við vorpróf, sem haldið var í barnaskólanum í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd, votta hjer með, að börnin reyndust yfirleitt mjög vel kunnandi, og mörg þeirra höfðu ágætan skilning og þekkingu á námsgreinunum, og var auðfundið, að þau höfðu notið góðrar fræðslu kennara. Öll framkoma barnanna, siðprýði og kurteisi, sýndu ljóslega, að í skólanum ríkti hlýðni, regla og agi, enda er kennarinn, hr. Árni Th. Pjetursson, að góðu kunnur sem sjerlega lipur og áhugasamur í kenslustarfi sínu.

Minni-Vogum, 29. maí 1920.

Þórður Klemensson.“

Næst vil jeg leyfa mjer að lesa upp vottorð frá síra Árna Þorsteinssyni, sem hljóðar þannig:

„Sem sóknarprestur gef jeg það vottorð, að börn þau, sem nutu kenslu hjá hr. Árna Th. Pjeturssyni, tóku þeim framförum, sem búast má við og menn geta vonað að börn taki á því æfiskeiði, sem þau eru. Um ástundun kennarans og lifandi áhuga á barnafræðslu votta jeg, ásamt áðursögðu, með sannri gleði.

Kálfatjörn, 17. apríl 1897.

Árni Þorsteinsson.

Þriðja vottorðið, sem jeg vil lesa, er frá sjera Árna Björnssyni og hljóðar þannig:

„Af þeirri kynningu, sem jeg hefi haft af börnum þeim, sem notið hafa tilsagnar hjá hr. barnakennara Árna Theódór Pjeturssyni, á Suðurkotsbarnaskóla á Vatnsleysuströnd, og síðan til mín gengið sem prests, get jeg vottað, að þau eru prýðisvel uppfrædd, og má þar af þá ályktun draga, að nefndur kennari bæði hafi góða kennarahæfileika, enda stóræfður í starfinu, og að því, er jeg heyrt hefi, árvakur og skyldurækinn.

Görðum, 6. júní 1920.

Ámi Björnsson.“

Auk þessara þriggja vottorða vil jeg nefna vottorðin frá sjera Sigurði Sivertsen, Sigurði Ólafssyni hreppsnefndaroddvita og Magnúsi T. Bergmann hreppstjóra, sem öll mæla eindregið með Árna og gefa það ótvírætt í skyn, að hann njóti álits og virðingar sem góður kennari.

Jeg hefi hjer litlu við að bæta, en vil aðeins geta þess, að allar líkur eru til, að einhver óvinur Árna hafi komið því til leiðar við stjórnarvöldin, að svona fór, og að þau hafi treyst hans upplýsingum betur en öllum þeim vottorðum, sem umsókn hans fylgdu.

Úr þessu ætti nánari rannsókn að geta bætt, og jeg vænti þess, að hin hv. deild vilji ekki koma í veg fyrir, að maðurinn fái hlut sinn rjettan, ef hann á það skilið. Sje eitthvað dularklætt við þetta mál, þá ætti gríman að falla við betri rannsókn, og engin ástæða til að verja eða halda verndarhendi yfir því athæfi, sem miðar til þess að launmyrða heiðarlega menn. En jeg ætlast ekki til, að Árni fái neina úrlausn eða uppreisn, ef hann á það ekki fullkomlega skilið. Sjálfur þekki jeg manninn lítið, þótt hann sje í mínu kjördæmi, því hann hefir altaf verið andstæðingur minn í stjórnmálum, en heiðarlegur andstæðingur.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, ber jeg það traust til deildarinnar, að hún samþykki till., nema að hún kjósi heldur hina leiðina, að veita honum þessar 8000 kr. nú í fjárlögunum, er hann mælist til að fá í sárabætur.