26.04.1922
Sameinað þing: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (1886)

95. mál, landsspítali

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hafði hugsað mjer að verða eigi svona seinn með till. þessa, en jeg vona, að það komi þó eigi að sök, hve seint hún kemur fram.

Það er langt síðan, að landsspítalamálið kom á dagskrá hjá þjóðinni. Í umræðunum um þetta mál 1919 hefi jeg sjeð þess getið, að málið hafi verið tekið fyrir á hinu fyrsta ráðgefandi þingi, sem hjer hafi verið haldið, og er því þetta mál jafngamalt Alþingi endurreistu.

Nú á síðari árum hefir komið fram mikill áhugi með þjóðinni um mál þetta, bæði í blöðunum og á þingi, og nú er það svo langt komið, að á þingi 1919 voru afgreidd lög um húsagerð ríkisins. Voru taldar þar upp þær opinberar byggingar, sem helst þótti þörf á að reisa sem fyrst, og var stjórninni heimiluð lántaka til þessara bygginga eftir þörfum, og áttu þau lán að endurgreiðast á 20–30 árum. Í þessum húsagerðarlögum er landsspítalinn efstur á blaði. Að vísu kemur fram í umræðunum hjá sumum, að mest þörf sje á því að endurreisa húsið á Hvanneyri, er brann, og er það nú búið, og viðbót við Kleppsspítala, og mun nú vera búið að gera grunn að þeirri byggingu,og ef til vill eitthvað meira. En svo kom líka fram á þinginu 1919 áskorun frá fjárveitinganefnd Nd. til stjórnarinnar um að hraða byggingu landsspítalans sem mest. Stjórnin lofaði því þá, en þó var álitið, að eigi væri hægt að byggja á því fjárhagstímabili.

Öllum kemur saman um það, að brýn nauðsyn sje á því að fá landsspítalann. En jeg veit af þeim mönnum hjer í þinginu, sem eru mjer færari um að skýra þá nauðsyn fyrir mönnum. Það er eigi nema eðlilegt, að mönnum komi saman um þörfina, því að landið á engan slíkan spítala. Hjer í Reykjavík eru að vísu spítalar, en þeir eru útlendir, og svo er farsóttahúsið, sem í rauninni er eigi spítali. Af þessu er auðsætt, að eigi má draga það, að landið reisi slíkan spítala. Þeir spítalar, sem fyrir hendi eru, eru eigi stærri en það, að þeir geta hvergi nærri rúmað alla þá sjúklinga, sem til þeirra leita. Hafa margir kvartað undan því, og orðið að liggja í heimahúsum, oft og tíðum í ljelegum húsakynnum, við illan aðbúnað og litla aðhlynningu. Finst mjer eigi ástæða til þess að fjölyrða um þörfina. Hún er viðurkend af öllum.

Enn má minna á það í þessu sambandi, að aðalspítalinn í þessum bæ er úr timbri, og er því eldhætta þar mikil, og ógurlegt, ef svo illa færi, að hann yrði eldi að bráð. En fyrir þessa hættu er enn meiri þörfin að koma landsspítalanum upp sem fyrst, og hann verður auðvitað reistur úr steini.

Mjer er eigi vel kunnugt, hve langt mál þetta er komið, en þó veit jeg það, að ríkisstjórnin mun hafa skipað nefnd manna, þá Guðmund prófessor Hannesson, Guðmund Thoroddsen lækni og Jón lækni Hjaltalín, ásamt húsagerðarmeistara ríkisins, til þess að undirbúa málið. Hefir Guðmundur Hannesson gert skipulagsuppdrátt að byggingunni, og mun nefndin hafa fallist á hann. Það ætti því mjög bráðlega að vera lokið þessu undirbúningsstarfi. Er það fyrsti undirbúningurinn, áður en byrjað er á öðru, að hugsa sjer bygginguna eins og hún ætti að verða. Fyr er eigi hægt að byrja á framkvæmdum.

Eins og getið er um í greinargerðinni, er búið að tryggja lóð undir þennan væntanlega spítala. Verður byggingunni líklega hagað svo, að eigi verður öll byggingin reist í einu, heldur hluti af henni, sem mönnum þeim, er um málið eiga að fjalla, kæmi saman um, að nægði í svipinn. Minnist jeg á þetta vegna þess, að jeg gæti hugsað, að stjórnin hikaði við að ráðast í fyrirtæki þetta, vegna hins mikla kostnaðar. Getur verið, að hún skilji heimildina svo, að eigi megi hefjast handa fyr en alt það fje, sem til fyrirtækisins þarf, er trygt. En svo þarf eigi að skilja heimildina. Enda er sennilegt, að það mundi taka mörg ár að reisa til fullnustu svo mikla byggingu sem þessa.

Er því alger óþarfi fyrir ríkissjóð að tryggja sjer alt fjeð fyrirfram; er nóg að byrja á og ljúka við það, sem menn ætla að byggja fyrst.

Menn segja, að erfitt muni að fá fje, og má það vel vera.

En jeg hygg þó, að mál þetta eigi svo mikil ítök í hugum allra landsmanna, að heppileg leið fyrir ríkisstjórnina væri að bjóða út sjerstakt landsspítalalán. Sjerstaklega hafa konurnar látið þetta mál til sín taka. Hafa þær safnað um 14 miljón til fyrirtækisins. Og þó að það fje sje ekki beinlínis ætlað til byggingar spítalans, þá er það þó honum til styrktar, og þó að konurnar ætli sjer að ráða yfir fjenu í framtíðinni og kosta með því rekstur spítalans eða einhverja deild hans, þá hygg jeg, að þær mundu vilja lána fje til byggingarinnar gegn vöxtum, því að líkindum nota þær eigi annað en vextina hvort eð er. Fjeð mun vera mikið til laust. Mundu þær vinna landsspítalanum tvöfalt gagn með þessu. En auðvitað er eigi fyrir vissu hægt að segja, hvernig konurnar mundu taka þessu, en þetta er aðeins hugleiðingar mínar.

Mjer þætti vænt um að fá að heyra undirtektir hæstv. stjórnar um þetta mál. Býst jeg eigi við, að hún leggi í þetta í sumar, þó að jeg reyndar telji undirbúning þá mjög æskilegan.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á lóðina. Þegar uppdrættirnir eru fullgerðir, mætti þegar byrja á því að draga að henni efni í bygginguna á sumri komanda; mundi það mjög flýta fyrir, ef stjórnin hugsaði sjer að hefja bygginguna 1923, ef undirbúningur byrjaði strax eða næsta haust. Getur það vel fallið saman við hag almennings, þegar þess er þörf, að atvinna fengist. Yrði það þannig hagur beggja, ríkisins og almennings. Einnig get jeg vel hugsað mjer, að bæjarstjórn Reykjavíkur mundi viljug til þess að framkvæma eitthvað af þessu verki og láta það koma upp í skuldaskifti bæjar- og ríkissjóðs.

Jeg skal svo eigi fjölyrða meir um þetta mál, enda býst jeg ekki við, að mótmælum verði hreyft gegn því. Mun aðeins vera um skiftar skoðanir að ræða um, hvenær beri að hefjast handa. Bíð jeg svo eftir undirtektum stjórnarinnar.