26.04.1922
Sameinað þing: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (1887)

95. mál, landsspítali

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg skal játa það, að jeg sá þingsályktunartill. rjett í þessu, og get jeg því ekki gefið neina skýrslu um, hvað gerst hefir nú þegar í þessu máli, því jeg hefi ekki átt tök á því að rannsaka það í stjórnarráðinu. En um það munum vjer allir vera sammála, að hjer sje um þjóðnytjamál að ræða. Hefir það og altaf verið mín skoðun. Minni jeg á, að jeg ljet, þegar landssjóður veitti dýrtíðarvinnu, vinna að undirbúningi landsspítalans, og sýndi það hug minn til málsins. Jeg vildi aðeins lýsa yfir því, fyrir hönd stjórnarinnar, að hún er öll á einu máli um það, að nauðsyn sje á því að koma landsspítalanum upp. En hvar á að fá fje til þess? Sannleikurinn er sá, að nú sem stendur er ekki fje fyrir höndum til þess. En hvernig það verður í framtíðinni, fer eftir fjárhagshorfunum þá. En undir eins og hægt er, þá tel jeg sjálfsagt að byrja á verkinu, en hvenær það verður, er ómögulegt að segja; það veit hvorki þing nje stjórn. Önnur svör get jeg ekki gefið.