26.04.1922
Sameinað þing: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (1888)

95. mál, landsspítali

Guðmundur Björnson:

Það er altaf best að segja sannleikann. Jeg þykist sjá í huga hv. þm., að þeir væni hv. þingbróður, 2. þm. Reykv. (J. B.), um það, að hann beri fram þingsályktunartillögu þessa fyrir fordildar sakir. En það er ekki svo að skilja.

Jeg veit vel, að hv. þm. sjá nauðsynina á þessu máli, og að þeir eru sammála um hana, en jeg veit líka, að þeir muni álíta, að ekki sje mögulegt að hefjast handa nú þegar, og því er minn góði þingbróðir vændur um það, að honum sje þetta fordildarmál.

Það er þess vegna, sem mig langar til að segja fáein orð. Jeg hefi nú um aldarfjórðung eytt kröftum mínum í þarfir heilbrigðismála landsins. Þegar um spítala er að ræða, þá er ekki úr vegi að taka dæmi, er sýna, hversu mikils virði þeir eru landi og þjóð. Skal jeg þá fyrst minnast á Holdsveikraspítalann. Jeg barðist fyrir honum með lífi og blóði. Það kostaði mikið erfiði að fá landið til að kosta fyrirtækið, en það hafðist, spítalinn var reistur, og þjóðin hefir aldrei iðrast eftir.

Þá er annar spítalinn, Kleppur. Jú, það þurfti spítala fyrir geðveika menn. Um það voru allir sammála. Og flestir vildu láta sjer nægja skýli yfir 25 vesalinga. Jeg gat með herkjum komið því í gegn, að það var bygt yfir 40–60 sjúklinga, og nú er það helmingi of lítið. Öll þjóðin veit, að það er helmingi of lítið. Nú kostar vera sjúklinganna á Kleppi eitthvað 400 kr. á ári, en uppi í sveit alt að 4000 kr.

Þá kem jeg að þriðja spítalanum. Það er Vífilsstaðahælið. Þegar því máli var hreyft fyrst, fanst öllum ómögulegt að ráðast í slíkt. Fyrst var ætlunin að reisa hæli handa 25 sjúklingum, svo var talað um handa 50, en á endanum gat jeg komið því upp í 75. Og þó er það langt of lítið. Seinast í gær sat jeg með tvö símskeyti í höndunum; var annað úr kjördæmi hv. þm. Snæf. (H. St.), þar sem beðið var að útvega brjóstveikri ungri stúlku rúm í spítala í Reykjavík, meðan beðið væri eftir, að rúm losnaði á Vífilsstöðum. Hitt skeytið var úr kjördæmi hv. þm. Barð. (H. K.), og alveg sama efnis.

Það fyrsta, sem jeg ætla að gera, þegar jeg hefi tíma til, er að fara norður í land og ráðgast við Norðlendinga um það, hvernig gerlegt muni að koma upp heilsuhæli á Norðurlandi.

Það má með sanni segja, að það hafi svifið sparnaðarandi, og hann hollur og sjálfsagður, yfir þessu þingi. En jeg held, að það sje eitt, sem þetta land hefir ekki ráð á að spara, og það er ráðstafanir til að verja mannslífin. Hjer, á þessu stóra, en fámenna landi, verða menn að horfa í margt, og síst af öllu mega menn horfa í ráðstafanir til þess að verja mannslífin. Hugsum oss þennan vetur, sem nú er að líða. Hann er einhver sá blíðasti og besti vetur, sem yfir þessa þjóð hefir liðið. En hvað mörg mannslíf höfum við þó ekki mist í sjóinn. Nei, við höfum ekki ráð á að spara neina ráðstöfun til verndar mannslífunum. Við getum sparað vegi, við getum sparað brýr og járnbrautir. En spítala getum við ekki sparað. Þegar við vöknum af sparnaðarsvefninum, þá sjáum við, að það má ekki spara neitt, sem er til þess að halda lífinu í þjóðinni. — En hæstv. forsætisráðherra (S. E.) spurði, hvar ætti að taka peningana. Jeg skal játa það, að jeg ætlast ekki til, að stjórnin geri neitt í þessu máli til komandi þings, en þá á að hefjast handa. Það er ekki nóg að fá landsspítalann. Við þurfum mikið meira. Jeg veit, að berklaveikisvarnir og sjúkrahús verða ávalt talin með mestu vandamálum þjóðarinnar.

Mín niðurstaða er sú, að jeg muni verða talinn of stórtækur, en reynast of smátækur. Jeg þarf að minsta kosti 5 miljónir kr., 3 miljónir til landsspítala, 2 miljónir til spítala úti um land. Það mun ef til vill verða sagt, að þeir peningar beri ekki ávöxt, en þeir tímar munu þó koma, að menn líta öðruvísi á þetta mál.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, ætlast jeg ekki til, að stjórnin geri neitt í þessu máli til næsta þings. En þá mun jeg koma, ekki sem þingmaður, heldur sem embættismaður þjóðarinnar, og sýna fram á, að það er eitt, sem við höfum ekki ráð á að spara. Það er mannslífin.