24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (1892)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Það mun þykja betur við eiga að láta nokkur orð fylgja till. þessari úr garði.

Eins og öllum er ljóst, þá hefir fjárhag þjóðarinnar stórhnignað ár frá ári, nú í hin síðustu ár, enda svo komið, að voði sýnist búinn öllu þjóðfjelaginu.

Þeir menn, sem fyrir fáum árum voru orðnir stórefnamenn og ráku stórfyrirtæki, eru nú margir svo snauðir orðnir, að eignir þeirra, þó að miklar sjeu, hrökkva hvergi nærri fyrir skuldum. Bændur, sem fyrir stríð voru alment efnalega sjálfstæðir, og margir, sem græddu drjúga fúlgu á stríðsárunum, eru nú alment orðnir mun fátækari en nokkru sinni hefir átt sjer stað í tíð þessarar kynslóðar. Bú þeirra hafa að vísu ekki minkað svo mjög, en skuldirnar hafa drjúgum vaxið, bæði við bankana og verslanirnar.

Þá er vitanlegt, að ástæður þurrabúðarmanna og verkafólks í kauptúnum eru ekki glæsilegar. Og undrar mig síst, þó að í ljós komi, áður en stundir líða, að fjöldi slíkra manna komist á vonarvöl og hætti að geta greitt hin allra nauðsynlegustu útgjöld sín, svo sem hina rándýru húsaleigu, er flestir þeirra eiga við að búa.

Með sanni má og segja, að efnahag þjóðarinnar virðist þann veg komið, að hún sje ekki fær um að kaupa annað en það, sem brýn nauðsyn hennar krefur.

Vitanlega liggja ýmsar orsakir til þess, að svo er komið. Ein er sú, að stríðsgróðinn gerði menn hálfruglaða. Sífelt verðfall peninganna kom mönnum til að líta smáum augum á verðmæti þeirra. Allar eignir stigu í verði, og sá, sem tefldi djarfast og hætti mestu, virtist bera mest úr býtum. Menn stofnuðu til nýrra stórfyrirtækja.

En Adam var ekki lengi í paradís.

Stríðsgróðinn hvarf á einu ári, og þeir, sem djarfast tefldu, urðu mát. Þeir, sem sigldu fullum seglum og þóttust öruggir um leiðina til hins fyrirheitna lands velgengni og auðlegðar, þeir kollsigldu sig.

Og þó hjelt kappsiglingin áfram. Menn hjeldu áfram að stofna ný og ný útgerðarfjelög og keyptu marga togara, þegar þeir stóðu í allra hæstu verði. Erlendur varningur af öllu tæi streymdi inn í landið. Lánstraust þjóðarinnar virtist ótakmarkað. Útlendingarnir fúsir á að lána og vildu umfram alt losna við varning sinn.

Árið 1920 komst erlendur varningur í hærra verð en nokkru sinni áður, og var þó innflutningurinn með mesta móti. Menn keyptu hann þrátt fyrir verðlagið, enda vonuðu menn, að innlendar framleiðsluvörur myndu hækka að sama skapi.

En sú von brást algerlega. Þegar okkar framleiðsla kom á markaðinn, var verðfallið byrjað og hinn háspenti bogi verðhækkunarinnar farinn að bresta.

Síðan hefir okkar framleiðsluvara, eins og kunnugt er, sífelt farið lækkandi. Og þó að erlendur varningur hafi einnig lækkað til muna, þá hefir sú lækkun tiltölulega minnu numið en verðlækkunin á okkar framleiðsluvörum. Til þess liggja þær ástæður, að bæði eru innkaup okkar erlendis gerð löngu áður en vörunnar er neytt í landinu, og afurðir okkar — gjaldeyrir erlendu vörunnar — koma ekki á markaðinn fyr en löngu seinna. Og svo er enn eitt, er á þessu síðastliðna ári hefir ekki haft hvað minst að segja í þessu máli, og það er verðfall það, sem orðið hefir á okkar peningum. En vitanlega er verðfall peninga okkar afleiðing af því, hvernig efnahag þjóðarinnar er komið, svo og því, að einstakir menn hafa átt kost á því að ná undir sig nokkru af gjaldeyri þjóðarinnar til þess að braska með hann.

Nú er svo komið, að engum heilskygnum manni blandast hugur um það lengur, að eitthvað verði að gera til þess að rjetta við efnahag þjóðarinnar og koma honum á rjettan kjöl. Og það er þetta mál, sem hlýtur að verða höfuðmál þessa þings. Því um það þarf ekki að deila, að á meðferð þessa máls veltur alt okkar sjálfstæði.

Tilgangur okkar flm. þessarar tillögu er því sá, að reyna að fá þingið til þess að ganga inn á þá braut, er við teljum einu færu leiðina til bjargar efnalegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Jeg veit, að öll höft láta illa í eyrum margra manna, og við flm. viðurkennum líka fyllilega, að höft sjeu úrræði, sem nota verði aðeins þegar brýn nauðsyn krefst þess. Undanfarandi ár hafa að nafninu til verið smávegis höft á innflutningi til landsins, enda virðist svo, að þessum höftum hafi verið þann veg framfylgt, að þau hafi ekki komið að gagni. Óþarfa varningur hefir, þrátt fyrir höftin, streymt inn í landið, og þar með hefir verið eytt gjaldeyri okkar, sem full þörf hefði þó verið að nota til greiðslu á nauðsynjavörum.

Vitanlega hefði þing og stjórn átt að vera svo víðsýn að sjá og finna, hvert stefni og hver voði var fyrir dyrum. En svo varð þó ekki. Að vísu vildu sumir af okkur, flm. þessarar tillögu, þegar á síðasta þingi fara þá leið, er tillaga þessi fjallar um, en við sáum jafnframt, að við höfðum ekki nægan byr til þess, að okkar stefna mætti sigra í framkvæmdinni.

Nú væntum við, að stefnubreyting sje á orðin í þessu máli hjá hinu háa Alþingi, enda nauðsynin öllum auðsærri en áður. Og af þingmálafundagerðum þeim, sem þinginu hafa borist, má draga þá ályktun, að vilji þjóðarinnar stefnir ótvírætt í sömu átt.

Við þykjumst þess fullvissir, að ef heftur verði innflutningur allra þeirra vara, er þjóðin má án vera, þá muni það stórfje, sem sparast. Við höfum ekki haft tækifæri til þess að gera rannsókn í þá átt, hvað hefta megi eða takmarka skuli, og ekki heldur hvað miklu það muni nema í krónutali. Það ætlumst við til að hin fyrirhugaða nefnd geri. En við viljum, að svo verði um hnútana búið, að þessi innflutningshöft verði ekki að engu gerð, með sífeldum undanþágum og ívilnunum til einstakra manna, eins og áður hefir viljað við brenna.

Jeg veit, að ýmsir eru þeir, er telja þá leið heppilegri að fá þjóðina með almennum samtökum til þess að spara sem mest við sig. Sú leið er að vísu ágæt og gott til þess að hyggja, að hún sje farin samhliða innflutningshöftunum, en hún er ekki einhlít. Jeg treysti sveitunum miklu betur að sjá sjer borgið með sparnaðarráðstöfunum heldur en sjávarþorpum og kauptúnum. Einatt eru einhverjir ráðleysingjar, sem kaupa varning, er þeir geta án verið, ef hann er á boðstólum. En þjóðin má ekki við því, eins og nú er komið, að einstaklingarnir noti fje sitt til greiðslu á erlendum varningi, sem þeir geta verið án.

Vitanlega má búast við, að mótbárum verði hreyft gegn höftum þessum, t. d. að slíkar ráðstafanir sem þær, er tillagan fer fram á, verði til þess að rýra atvinnu sumra þeirra manna, er nú versla með erlendan varning. En hjá því verður ekki komist. Og ekki má einblína á atvinnumissi fárra manna, þegar um hag þjóðarinnar og velmegun heildarinnar er að ræða.

Af því, sem jeg hefi nú sagt, vona jeg, að hv. þdm. sje það ljóst, að við flm. tillögunnar teljum það höfuðbjargráðin fram úr því fjármálaöngþveiti, sem þjóðin er sokkin í, að hún verji gjaldeyri sínum aðeins til kaupa á bráðnauðsynlegasta varningi. En við álítum jafnframt, að það muni aldrei gert með innflutningshöftum einum, heldur þurfi ríkisstjórnin að hafa eftirlit með afurðasölu landsins, eða umráð yfir andvirði þeirra. Ætlumst við því til, að hin væntanlega viðskiftanefnd rannsaki mál þetta og geri tillögur um, á hvern hátt hún álíti þessu eftirliti — eða umráðum — best komið fyrir.

Það virðist liggja öllum í augum uppi, að þjóðin megi alls ekki við misnotkun á sínum litlu gjaldeyrisvörum, ef hún á að sjá sjer farborða og ná aftur sínu efnalega sjálfstæði, og er ilt til þess að vita, að ekki skuli hafa verið neitt til þess gert af hálfu þess opinbera að hefta misnotkun á gjaldeyri vorum, og það á þessum síðustu og verstu tímum.

Vitanlega rjettir þjóðin ekki aftur við efnalega fyr en hún flytur meira út en inn. Efnalegu sjálfstæði hennar er þá borgið, er hún leggur meira inn í erlenda viðskiftareikninginn heldur en hún tekur út úr honum. Þá fyrst stíga okkar peningar í verði, þegar andvirði þjóðarafurðanna verður hærra en greiða þarf fyrir erlenda varninginn.

Jeg vil taka það fram, að verði viðskiftanefnd skipuð, þá ætlumst vjer til, að hún rannsaki, á hvern hátt beri að fara að í gengismálinu.