24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (1895)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jón Þorláksson:

Jeg hefi í hyggju að greiða atkv. með till. um að skipa nefnd þá, sem hjer er um að ræða. En þótt jeg geri svo, þá er það þó ekki af því, að jeg sje samdóma þeim ástæðum, sem standa á þskj. 25, eða hv. flm. (Þorst. J.) hefir nú látið í ljós. Jeg hygg, að flm. og frsm. skjöplist hjer í sama atriði og hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) í síðari hluta hinnar ágætu ræðu sinnar við 1. umr. fjárlaganna, sem sje í því, að vilja nú þegar koma fram með till. um það, til hverra ráðstafana beri nú að taka í fjármálunum, án þess að fyrir liggi skýrsla um niðurstöðu síðasta árs, því að á henni virðist mjer nauðsynlegt að byggja að nokkru leyti.

Þá vil jeg leyfa mjer að minna á þá staðreynd, að því er snertir innflutningshöftin, að slíkar ráðstafanir verka oft í gagnstæða átt við það, sem til er ætlast. Það er og vitanlegt, að fólk er nú fastheldnara en áður á fje sitt, enda munu kaupmenn þeir, sem versla að mestu með ónauðsynlegan varning, hafa orðið þess tilfinnanlega varir. Innflutningur á slíkum vörum hefir farið stórum minkandi á síðasta ári. En svo þegar farið er að tala um algerð innflutningshöft á einhverri vörutegund, þá kemur óttinn um, að sú vara gangi brátt til þurðar, og með honum freistingin að birgja sig upp að þeirri vöru í tíma, ef hægt sje. Niðurstaðan verður því oft sú, að slík höft auka aðeins innflutning vörunnar, svo framarlega sem unt er að fá undanþágu eða undanbrögðum verður við komið. Eins og menn vita, er oft örðugt fyrir stjórnina að standa í gegn beiðnum um undanþágur, þegar hægt er að benda til þess, að vara sú, sem um er að ræða, sje upp gengin á staðnum.

Með þessu vil jeg þó ekki segja, að jeg geti ekki felt mig við nein innflutningshöft. Jeg vildi aðeins mæla þessum varnaðarorðum, sem reynsla mín á innflutningshöftum hefir bent mjer til, hv. þm. til íhugunar.

Jeg get vel verið því samþykkur, að heftur sje innflutningur á einstökum vörutegundum, sem eitthvað verulega munar um, og þá helst á þeim, sem allur almenningur notar, því að í því felst nokkur trygging gegn því, að höftin verði látin standa lengur en nauðsyn krefur.

Hitt atriðið, að koma sölu afurða landsins undir eina stjórn, held jeg að hljóti að leiða til beins tjóns. Jeg held, að allir sjeu samdóma um það, að afurðir síðasta árs hafi selst yfirleitt með viðunandi verði, og var þó sú sala í höndum framleiðenda sjálfra. Sje jeg ekki, að nein ástæða sje að taka hana nú úr höndum þeirra.

Þegar menn segja, að þessa þurfi til að hafa hemil á gjaldeyri þeim, er fáist fyrir afurðirnar, þá er auðsætt, að miðað er þar við ástand, sem var fyrir hálfu ári, en er ekki nú. Það ástand stafaði af óheppilegri afstöðu bankanna. Þá var það hreint gróðabragð fyrir útflytjendur að fara fram hjá bönkunum með gjaldeyri sinn, af ástæðum, sem allir munu þekkja. En nú hafa þeir breytt um stefnu. Jeg hefi fyrir skömmu spurt bankastjóra, hvort þeir haldi, að það verði haldið áfram með að fara fram hjá bönkunum með gjaldeyrinn, og hafa þeir svarað því neitandi. Verður þeirri ástæðu því ekki til að dreifa.

Að lokum er því slegið föstu í niðurlagi ástæðnanna á nefndu þskj., að gengismunurinn sje þjóðinni í óhag. Þetta er ekki alls kostar rjett. Gengismunurinn er ekki öllum stjettum landsins í óhag. Framleiðendum er hann hreint og beint í hag. Ef þess vegna, eins og flestum ber saman um, ríður á því að halda framleiðendum uppi, þá er ekki hægt að neita, að gengismunurinn gerir sitt til þess. Það er þó ekki svo að skilja, að jeg vilji halda því fram, að gengismunurinn sje yfirleitt þjóðinni í hag, heldur vildi jeg aðeins benda á, að þetta ber einnig að taka með í reikninginn.