24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (1899)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að stjórninni hefði mistekist að framkvæma innflutningshöftin, en jafnframt sagði hann þó, að ómögulegt væri að hefta innflutninginn. Hann undrast því yfir, að stjórninni skuli eigi takast að framkvæma ómögulega hluti. — Mikil er trú hans á stjórninni. Annars má hv. þm. (Jak. M.) vera það vel kunnugt, frá umr. í fyrra, að alt gekk út á það, að draga úr innflutningshöftunum, og atvinnumálaráðherrann sá sjer því eigi fært að beita innflutningshöftunum frekar en gert var.

Þá var hv. þm. (Jak. M.) að ávíta stjórnina fyrir það, að hún hefði ekki greitt fyrir viðskiftum bankanna út á við. Stjórnin hefir þó tekið lán, og það var hans eina bjargráð í fyrra. Þá áleit hann, að það eitt væri nóg. Það má að vísu deila um, hversu stórt lánið hafi átt að vera, en þm. (Jak. M.) hefir ekki viljað nýtt lán, og bendir það til þess, að lánið í fyrra hafi verið nógu stórt.

Þá sagði hann, að setja hefði átt á stofn veðbanka, svo að selja mætti verðbrjef í Danmörku. En það hefir nú verið spurst fyrir um tilboð í verðbrjef frá útlöndum, en tilboðin hafa verið svo lág, að eigendurnir hafa ekki viljað selja. Ekki er líklegt, að komið hefðu hærri tilboð í verðbrjef hins nýja banka. Á sama máli er hinn tilvonandi bankastjóri þessa nýja banka, því að honum var falið að reyna fyrir sjer um tilboð, ef hann áliti það færa leið, en hann hefir ekki gert það.

Þá sagði sami hv. þm. (Jak. M.), að gengið skapaðist af áliti annara þjóða á okkur. En þetta er ekki rjett, sem sýna má með dæmi. Maður, sem á fje hjá oss, getur haft brýna þörf fyrir að brúka það þegar í stað. Hann getur þá neyðst til að selja það með afföllum, til þess að fá peningana strax, þótt hann annars telji okkur örugga skuldara.

Hann sagði, hv. þm. (Jak. M.), að bankarnir ættu að vera svo öflugir, að þeir gætu annast utanlandsviðskifti, og það jafnvel þótt högum vorum væri þannig háttað, að við keyptum meira inn en við flyttum út. En mjer er spurn: Hvar á að taka mismuninn, ef þannig fer ár eftir ár? Það er ekki hægt á annan hátt en með nýju láni. Þá er komið að sama punktinum og í fyrra, að taka ný lán, en þá pólitík get jeg ekki fallist á.