24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (1900)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jakob Möller:

Jeg verð að standa upp til þess að leiðrjetta ýmsan misskilning hjá hæstv. fjármálaráðherra (M. G.). Hann sagði, að jeg hefði sagt, að bankarnir ættu að vera færir um að annast utanlandsviðskifti, jafnvel þótt framleiðslan væri minni en innflutningurinn, og spurði, hvernig slíkt endaði, ef þannig gengi ár eftir ár. En það er auðvitað, að slíkt getur ekki átt sjer stað til lengdar, enda hefi jeg ekkert sagt í þá átt. En bankarnir hafa önnur ráð til að hafa hemil á eyðslunni og koma jafnvægi á þetta. Þeir hljóta sem sje, þegar svo er komið, að eyðslan er orðin meiri en framleiðslan, að kippa mjög að sjer hendinni um lánveitingar. Ef þeir gera það, þá verður ómögulegt til lengdar að flytja meira inn en út, eða eyða meira en aflað er, því að menn taka þó ekki seðla upp úr grjótinu.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) sagði, að lánstraustið eða álit manna skapaði ekki gengið. Jeg sagði nú ekki beinlínis, að það skapaði gengið, en væri hins vegar mestu valdandi um það. Dæmið, sem hann tók um manninn, sannar ekki það gagnstæða, því að einmitt það verð, sem hann fær fyrir innieign sína hjá okkur, skapast af áliti því, sem kaupandinn hefir á okkur.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) sagði, að jeg gerði lítið úr því, hvort útflutningur og innflutningur stæðist á. Þetta er misskilningur. Aðalatriðið er, að útflutningurinn sje meiri en innflutningurinn. En hitt er annað mál, að þótt innflutningur sje meiri, má koma í veg fyrir það, að gjaldeyririnn falli niður úr öllu valdi, enda alkunnugt frá fyrri árum, að ýms lönd hafa flutt meira inn en út, án þess að það hafi orðið að tjóni.

Þá var hæstv. fjrh. (M. G.) mjög ánægður með gengishagnaðinn á enska láninu. Mjer kom það sannast að segja mjög á óvart. Sá maður, sem á öðru þinginu fyrirlítur að taka lán, þótt miljónir mætti taka á þurru landi, gleðst nú á þessu þingi yfir gengishagnaði, sem tekinn er úr vösum landsmanna sjálfra. Ef lánið hefði verið tekið 1920, hefði gengishagnaðurinn verið tekinn á þurru landi, en nú fæst hann aðeins með því að lækka íslensku krónuna í verði.

Þá mintist hann á framkvæmd innflutningshaftanna og kvað atvinnumálaráðherra ekki hafa treyst sjer til að framkvæma þau án viðskiftanefndar. En hvers vegna vildi stjórnin þá halda í höftin, og gerði meira að segja ráð fyrir, að þau yrðu aukin? En annars skil jeg ekki í því, að ekki sje hægt að banna innflutning á fleiri eða færri vörutegundum, án þess að hafa nefnd til að banna hann.