21.02.1922
Sameinað þing: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (1920)

21. mál, fjárhagsástæður ríkissjóðs

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það virðist svo, sem till. á þskj. 21, sem við 6 þm. höfum leyft okkur að koma með, sje ekki ófyrirsynju fram borin, því að samtímis henni kemur fram önnur till., á þskj. 20, um sama efni. Og þetta stafar vitanlega af því, að flm. þessara 2 till. hafa ekki vitað hvorir af öðrum. Annað bendir einnig til þess, að till. sje tímabær, og það er allur sá fjöldi af þingmálafundargerðum, hvaðanæfa af landinu, sem fara fram á niðurfærslu opinberra gjalda í stórum stíl, fækkun opinberra starfsmanna, þar sem því verður komið við, og sameining þeirra opinberra starfa, sem sameina má. Það hafa jafnvel komið fram raddir um að fella úr gildi ýms skatta- og tolllög, og þetta stafar vitanlega af því, hve skórinn kreppir nú að mönnum með opinber gjöld. Það er sjálfsagt ekki nema eðlilegt, að almenningur hugsi svo, því að síðustu 7–8 árin hefir opinberum starfsmönnum fjölgað óvenjumikið, og af því að þessi fjölgun hefir hitt á versta dýrtíðartímann, hafa gjöldin, sem henni eru samfara, orðið tilfinnanlegri. Það væri vissulega alt of tómlátlega með þessar áskoranir farið, ef litið væri á þær eins og víl eða kjósendaskrum. Þeir, sem bera þær fram, eru áreiðanlega til þess knúðir af sárri þörf.

Jeg verð að segja, að í þeim hlutum landsins, sem jeg þekki best, er efnalegt ástand ískyggilegra en jeg man að áður hafi verið. Og öllum mun það ljóst, að þær stoðir, sem áður hafa runnið undir ríkissjóð, eru nú að feyskjast og falla. Má þar benda á mörg fjelög og einstaka menn, sem orðið hafa gjaldþrota á þessum síðustu tímum. Og jeg held, að líkt sje ástatt hvarvetna um landið, þótt nokkru muni frá einu hjeraði til annars. Jeg veit um sjávarþorpin á Austur- og Norðurlandi, að aldrei hefir hagur þeirra þrengri verið en nú. Útvegsmenn eru að gefast upp og útvegurinn að fara í strand. Sömu sögu segja bændurnir úr sveitunum. Hvert sem litið er blasir við hrun eða hnignun atvinnuveganna, sem orðið hafa fyrir þyngri skattaálögum síðustu ár en nokkru sinni áður.

Fyrir þessa skuld álít jeg rjett að reyna að mæta kröfunum, sem komnar eru, á miðri leið, reyna að uppfylla óskirnar eftir mætti og þreifa fyrir sjer, hvar hægt sje að færa saman gjöldin.

Því verður varla neitað, að starfsmannafjöldinn á voru landi er tiltölulega meiri en í nokkru öðru siðuðu landi. Það liggur að vísu í landsháttum, sem ekki er hægt að breyta, en þó hygg jeg, að eitthvað mætti úr þessu bæta.

Mjer er það ekki fyllilega ljóst, hve mikið fje gengur til opinberra starfsmanna úr ríkissjóði yfirleitt, en jeg má segja, að það lætur nærri 5 milj. kr. En auk þess er mikið goldið af sveitar-, bæjar- og sýslufjelögum. Jeg veit ekki, hve miklu það nemur, en ekki kæmi mjer á óvart, þótt gjöld þau reyndust um 2 miljónir, eða öll launafúlga opinberra starfsmanna væri um 7 miljónir króna.

Sveitir, bæir og sýslur greiða að miklu leyti, svo sem kunnugt er, laun presta, kennara, ljósmæðra og símavörslu, auk annars í opinberar þarfir.

Ef það er rjett til getið hjá mjer, að laun allra opinberra starfsmanna nemi um 7 milj. kr., þá er það ógurlegt gjald, eða milli 70 og 80 kr. á nef hvert í landinu. Það gefur að skilja, að þessi útgjöld hvíla þungt á landsmönnum í slíku árferði sem nú er, og að lítið muni verða afgangs til annara þjóðnytjafyrirtækja.

Jeg efa það ekki, að sitthvað megi laga í þessu efni; jeg efa það ekki, að hægt sje að draga nokkuð úr þessum gjöldum, t. d. starfrækslu símanna.

Jeg tók eftir því í ræðu hæstv. fjrh. (M. G.) um daginn, þegar hann skýrði frá hag ríkissjóðs 1921, að símatekjurnar, sem að vísu eru að nokkru áætlaðar, væru um 1,100,000 kr., en það fje gekk alt til starfrækslu símanna og í þarfir þeirra. Að vísu hefir nokkru verið varið til byggingar og viðhalds símunum, en þegar þess er gætt, að auk kostnaðarins af hálfu ríkissjóðs er starfræksla símanna úti um landið kostuð að miklu leyti af hjeruðum og sveitarsjóðum, og líklega með stærri upphæð en varið hefir verið á næstliðnu ári til viðhalds símunum, þá leynir það sjer ekki, að starfrækslan er harla dýr, og er því þó ekki til að dreifa, að hátt sjeu launaðir starfsmenn smástöðvanna í sveitunum.

Laun ýmsra símastarfsmanna hafa einnig vakið mikla óánægju meðal þeirra, sem vinna að ver launuðum störfum. Símameyjar, sem vinna við langlínuafgreiðslu, hafa fengið á fjórða þúsund krónur í árskaup, eða jafnvel meira, fyrir 6 tíma vinnu á dag, og krefst þó starf þeirra engan veginn mikils undirbúnings eða náms. Þegar þetta er borið saman við mörg önnur störf, sem oft eru erfiðari, en ver launuð, sjest það ljóslega, að launin við símana eru óþarflega há. Jeg fyrir mitt leyti get ekki metið meira störf símameyja en margra vinnukvenna, sem afkasta miklu nytjastarfi í þarfir heimilanna fyrir mörgum sinnum — jafnvel tíu sinnum lægra kaup. Það er því eðlilegt, að óánægja hafi sprottið út af þessu ósamræmi í kaupgreiðslu, og vel væri það athugandi, hvort ekki væri tilhlýðilegt að færa símalaunin eitthvað niður.

Vegna þess, að till. felur í sjer ósk um sameining embætta, þar sem því verður komið við, vil jeg benda á þá hugsun, sem fyrir mörgum vakir, að hæstirjettur gæti verið eins vel skipaður, þó að meðdómendur væru hinir sömu sem annast kenslu í lagadeild háskólans. Eins má benda á það, að störf presta og kennara gætu oft farið saman, og mætti ef til vill á þeim grundvelli fækka eitthvað opinberum starfsmönnum. Þetta hefir einnig komið fram hjá hæstv. stjórn í frv. um barnafræðslu, þar sem prestum er ætlað kauplaust starf í þarfir fræðslumálanna.

Það er vitanlega ekki hægt að sameina eða leggja niður embætti, sem nú eru skipuð, það verður að bíða þangað til þau losna, en í annan stað má benda á, að í mörgum embættum eru nú settir menn, og þar mætti koma breytingunni að undir eins. Nokkuð líkt gildir um dýrtíðaruppbótina; það er ekki hægt að hrófla við henni, þar sem hún er lögbundin til 1925, en í mörgum stöðum er henni ekki þann veg farið, heldur hverju sinni veitt í fjárlögunum.

Till. fer fram á skipun nefndar til þess að rannsaka hag ríkissjóðs, og felst að sjálfsögðu ekkert annað eða meira í því en það, að rannsaka gjaldþol ríkisins og möguleikana til þess að ljetta af ýmsum gjöldum. Það getur hver og einn sagt sjer sjálfur, að því starfi verður ekki að fullu lokið á þessu þingi, meðal annars af því, að það á að vera stutt, en þó gæti sú rannsókn og sá undirbúningur, sem hjer fer fram, orðið að miklu liði síðar. Og því fyr sem farið verður að rannsaka þetta mál af alvöru og kostgæfni, því fyr má búast við, að einhverju verði skipað til betri vegar, enda eigi vonlaust, að þegar á þessu þingi megi einhverju um þoka.

Jeg skal svo ekki segja fleira að sinni. Það má vera, að einhverjir hreyfi hjer, mótmælum, en jeg vona þó, að þessi umr. þurfi ekki að taka langan tíma. Jeg vil að endingu geta þess, viðvíkjandi till. á þskj. 20, að mjer hefir skilist svo, að samkomulag væri um að halda sjer að þessari till. (21), en ef hún nær ekki fram að ganga, að styðja þá till. á þskj. 20. Þær fara mjög í eina átt, og má því að mestu leyti einu gilda, hvor samþykt verður. En þó hefi jeg það að athuga við till. á þskj. 20, að hún nær aðeins til annarar deildarinnar, og auk þess gerir hún ráð fyrir fleiri nefndarmönnum, en það verð jeg að álíta óheppilegt, því gera má ráð fyrir, að skipa verði margar lausanefndir, og verður þá erfitt að fá þær allar vel skipaðar, ef fjölmennar eru.