25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (1927)

25. mál, tala ráðherra

Jakob Möller:

Ástæðurnar fyrir brtt. minni á þskj. 29 eru að miklu leyti þær sömu og flm. aðaltill. En auk þess vil jeg taka það fram, að jeg hefi frá upphafi verið þeirrar skoðunar, að fjölgun ráðherranna hafi verið óþörf, og að best hefði verið að hafa enn aðeins einn ráðherra. Að vísu geri jeg ráð fyrir, ef till. mín verður samþykt, að ekki verði hægt að koma því við að setja sjerstakan landritara, eins og áður var. En jeg sje heldur enga þörf á því; ráðherra gæti vel haft einhvern þann starfsmann í stjórnarráðinu, t. d. einn skrifstofustjórann, sem unnið gæti verk landritarans.

Jeg held því fram, að tveggja ráðherra fyrirkomulag sje óheppilegt, þrátt fyrir ummæli hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Ágreiningur milli tveggja ráðherra hlýtur oft að enda með því, að ágreiningsmálið fellur niður, þannig, að ekkert verður úr framkvæmd. Þeir munu vafalaust oft kjósa þau málalok heldur en að halda ágreiningsmálinu fram til streitu. En á þessu er minni hætta, ef ráðherrarnir eru þrír; þá verða tveir á móti einum, og þá mjög sennilegt, að þessi eini láti undan og leyfi málinu að ganga fram. Get jeg vel dregið dæmi að þessu. Það kom t. d. fram í ræðu hæstv. fjrh. (M. G.), er hann talaði um innflutningshöftin, að þar höfðu tveir ráðherrarnir orðið sammála, en sá þriðji hafði þá látið undan.

En aðalástæðan fyrir því, að jeg flyt þessa brtt., er sú, að jeg tel ekki ofverk einum manni að annast stjórnarstörfin, svo sem áður tíðkaðist. Þau störf hafa ekki vaxið síðan að neinum mun.

Þá er og með þessari brtt. fyrir það girt, að einn ráðherra velti ábyrgð yfir á annan, og yfirleitt mundi þá ráðherrann gegna störfum sínum með meiri ábyrgðartilfinningu.

Jeg hefi heyrt því hreyft, að þessi brtt. mín fari í bága við stjórnarskrána. Og enda þótt slíku hafi enn ekki verið hreyft af hæstv. forseta, vil jeg þó fara um það atriði nokkrum orðum.

Í 11. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið svo á, að konungur ákveði tölu ráðherranna. Í því liggur, að konungur getur jafnt ákveðið, að þeir skuli vera 1 eða fleiri. Að vísu vil jeg ekki neita því, að stjórnarskráin gerir annars ráð fyrir, að ráðherrarnir sjeu fleiri en einn, en líka fleiri en tveir. Þess vegna er till. um að fækka ráðherrum niður í tvo alveg eins brot á stjórnarskránni, svo framarlega sem mín till. er það. Í 13. gr. er sagt, að ráðherrarnir skuli halda með sjer fund, ef „einhver ráðherranna óskar þess“, og í 14. gr. stendur: „hinna ráðherranna“.

Stjórnarskráin gerir því að vísu ráð fyrir að minsta kosti þrem ráðherrum, en þó eru þau ákvæði ekki bindandi fyrir konung, þar sem honum er skýlaust gefið vald til þess að ákveða tölu ráðherranna.

Læt jeg svo úttalað um þetta mál að sinni, en vænti þess, að þeir þm., sem eru sparnaðarstefnunni fylgjandi, greiði till. minni á þskj. 29 atkvæði sitt.