25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (1929)

25. mál, tala ráðherra

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er í raun og veru ekki mikil ástæða fyrir mig að ræða þessar till., nema að því leyti, sem ráðherrarnir eru nú aðeins tveir. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá var mikið talað um það á þingi 1914, að allmikil ástæða væri til að fjölga ráðherrunum og leggja niður landritaraembættið.

1915 var lagt fyrir þingið stjórnarfrv. um, að ráðherrar skyldu vera tveir, en það þótti ekki ástæða að gera breytinguna þá, heldur skyldi athuga málið. En í byrjun ársins 1917 var ráðherrum fjölgað og ákveðið, að þeir skyldu vera þrír, en lögin frá 4. jan. 1917, um tölu ráðherranna, fallin úr gildi með stjórnarskránni. Mun ákvæðið í 11. gr. stjórnarskrárinnar einmitt hafa verið sett til þess, að ráðherrarnir gætu verið tveir.

Það er satt, að það er gert ráð fyrir því í stjórnarskránni, að ráðherrarnir sjeu að minsta kosti þrír, en mjer virðist það ekki einsætt, að á þann hátt sje bygt á þessu, að þeir megi ekki vera tveir. Jeg hygg, að stjórnarskráin hafi verið samþykt með þeim skilningi, að þeir gætu verið tveir. En hitt efast jeg um, að það geti vel samrýmst við stjórnarskrána, að hafa þá færri en tvo. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál að svo stöddu.