25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (1931)

25. mál, tala ráðherra

Jakob Möller:

Það er raunar óþarft fyrir mig að standa upp, því að í þessum umræðum hefir ekkert komið fram, er jeg þarf að svara.

Hv. samþm. minn (J. Þ.) sagði, að jeg teldi till. hans brot á stjórnarskránni. En það var tilbúningur hjá honum. Ef jeg áliti, að hans till. væri stjórnarskrárbrot, þá væri mín till. það líka, og þá hefði jeg auðvitað ekki borið hana fram. Þá var það fullkomlega misskilningur hjá honum, að jeg vildi hafa landritara. Jeg tók það fram, að einhver skrifstofustjórinn gæti gegnt embættinu í forföllum ráðherra. Það hefir jafnvel viðgengist meðan þeir voru þrír. Jeg sje ekki ástæðu til, að það þurfi endilega að vera embættisskylda einhvers sjerstaks manns í stjórnarráðinu að gegna störfum í forföllum ráðherra. Þó gæti hver ráðherra vitanlega ráðið ákveðinn mann í því skyni. Þess vegna fellur alt tal hv. þm. (J. Þ.) um landritaraembættið og sparnað um sjálft sig.

Þá sagði hann, að 13. gr. stjórnarskrárinnar fjelli niður, ef ráðherrann yrði einn. Þetta er mesti misskilningur. Hún stendur eftir sem áður og hefir sitt fulla gildi, þegar henni verður komið við.