18.03.1922
Sameinað þing: 7. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (1942)

53. mál, stjórnarskráin

Forsætisráðherra (S. E.):

Það er ekki meining mín að svara ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), heldur aðeins lýsa yfir því, fyrir hönd stjórnarinnar, að hún sjer ekkert á móti því, að þing sje aðeins haldið annaðhvert ár. En jeg vil bæta því við frá sjálfum mjer, að jeg tel það mjög vafasamt, að sú breyting sje heppileg.

Frá því að jeg kom fyrst á þing, sem var 1912, hefir þing verið háð á hverju ári, og má segja, að það hafi stafað af stjórnarskrárbreytingu, en þó að ekki hefði verið svo ákveðið í stjórnarskránni, þá er mjer þó næst að halda, að þing hefði samt sem áður verið haldið árlega. Auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, að haldin verði aukaþing, þegar þess gerist þörf. Mönnum mun ekki dyljast það, að ýms vandkvæði eru á þessu máli, og þá einkum það, að hjer þarf stjórnarskrárbreytingu. Jeg vil biðja menn að athuga það, að þessi stjórnarskrá vor er fengin með miklu erfiði og margra ára stríði, og væri farið fram á þessa breytingu, mundu vakna ýmsar aðrar till., gömlu deilumálin rísa upp að nýju og leiða til harðrar stjórnmálabaráttu. Á þessu vildi jeg vekja sjerstaka athygli manna.

Jeg tel stjórnarskrá vora svo góða, að vel sje við hana unandi.

Jeg tók það fram í byrjun ræðu minnar, að jeg ætlaði ekki að svara ræðu hv. þm. V.-Ísf. (S. St.). En mjer fanst hv. þm. vilja láta það skína í gegnum ræðu sína, eins og hann virðist altaf vilja, að hinn örðugi fjárhagur landsins stafi af fullveldisvímunni, sem hann kallar, en jeg get ekki á nokkurn hátt sjeð það, að nokkur skyldleiki sje þar á milli, og mun óhætt að fullyrða það, að fullveldið á lítinn þátt í fjárhagsvandræðunum. Jeg vildi taka þetta fram, því jeg tel það mjög óviðkunnanlegt og óviðeigandi að leggja stöðugt áherslu á þetta, eins og þm. (S. St.) gerir, jafnvel þótt það sje gert á grímuklæddan hátt.