18.03.1922
Sameinað þing: 7. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (1945)

53. mál, stjórnarskráin

Guðmundur Björnson:

Jeg vil þakka hv. sparnaðarnefnd fyrir það, að hún reynir að benda á ýmsar leiðir til þess að draga úr útgjöldunum. Ein af þessum leiðum er, að skoðun nefndarinnar, að hafa Alþingi aðeins annaðhvert ár. En ýmsum virðist sparnaðurinn verða minni með þessu en búast mætti við. Jeg held, að árangurinn yrði sá, að við fengjum aukaþing annaðhvert ár, og þá er lítið sparað. Síðan 1912 hefir Alþingi verið háð á hverju ári. Sjerstakar ástæður hafa valdið þessu, en þær ástæður eru enn fyrir hendi. Heimurinn er ekki kominn í samt lag eftir ófriðinn mikla. Marga óvænta atburði, sem krefjast skjótrar úrlausnar, geta borið að höndum. Þörfin mun leiða í ljós, að „Alþingi annaðhvert ár“ verður aðeins á pappírnum. Í raun og veru verður þing á hverju ári. Það er nauðsynlegt á hverju ári.

En það er önnur leið á þessu sviði, sem fara mætti til sparnaðar: reyna að spara þingkostnaðinn. Þá leið er verið að reyna, og get jeg þar vísað til frumvarps, sem er á ferðinni, um að fella niður prentun á ræðuparti þingtíðindanna. Auk þess væri ef til vill fært að stytta þingin að mun og spara árlega stórfje með því móti. Þá leið er líka reynt að fara. Mönnum kom saman um að hafa þetta þing ekki lengra en brýn nauðsyn krefði.

Þá má benda á það, að þingið verður aðgætnara í fjármálum, ef það er háð á hverju ári og fjárhagstímabilið aðeins eitt ár. Svo hefir reynslan orðið. Fjáraukalög eru nú horfin úr sögunni. Þingið getur betur fengið yfirlit yfir þarfir landsins og þarf síður að tefla á tvísýnu. Með þessu móti hefir þingið líka fengið algerlega í sínar hendur sitt mikilsverðasta og merkilegasta vald, fjárveitingarvaldið. Það vald má þingið ekki láta frá sjer fara, það vald má þingið ekki fela stjórninni, þó að það treysti henni, því að án fjárveitingarvaldsins er þingið lítilsmegandi.

Það er sannarlega gleðilegt, að fjáraukalögin eru horfin, þessi bráðabirgðaútgjöld, sem stjórnin þurfti að greiða upp á væntanlegt samþykki þingsins. Jeg vildi ekki verða til þess, að sá siður tækist upp að nýju.

En það er annað atriði í þessari till., sem ekki hefir verið minst á, og það er fækkun ráðherranna. Að henni er enginn sparnaður, því að í stað ráðherranna verða að koma skrifstofumenn í stjórnarráðið. Breytingin er engin önnur en sú, að í stað ráðherranna, sem bera ábyrgð gerða sinna fyrir Alþingi, koma ábyrgðarlausir embættismenn, og er sú breyting síst til bóta. Hún er pólitísk fjarstæða.

Af því, sem jeg hefi sagt, leiðir það, að jeg get ekki greitt atkv. með till. út úr þinginu, eins og hún er. En jeg get greitt henni atkv. til 2. umr., og það mun jeg gera.

Það hefir verið bent á það, að hjer sje um stjórnarskrárbreytingu að ræða, og tel jeg engan vafa á, að svo sje. En ef breyta á stjórnarskránni, þá kemur margt til athugunar. Jeg er á þeirri skoðun, að mörgu þurfi að breyta í henni, en jeg hefi hvorki tíma nje tækifæri til þess að telja það upp hjer. En á þetta vildi jeg benda: Stjórnarskrárbreyting er mikilsvert málefni. Stjórnarskránni hefir oft verið breytt, en það hefir altaf verið gert í hálfgerðu flaustri. Milliþinganefndir hafa verið skipaðar í ýms mál, en aldrei við stjórnarskrárbreytingar. Hins vegar tel jeg það ofætlun stjórninni, að hún geti undirbúið stjórnarskrárbreytingu undir næsta þing, svo að gagni komi. Eitthvað verður að gera. Milliþinganefndir þykja dýrar og eru yfirleitt ekki vel sjeðar. En mætti nú ekki fá mæta menn til þess að taka að sjer það starf, kauplaust, að athuga stjórnarskrána og kom fram með tillögur um breytingar á henni? Það mætti líta á þetta sem heiðursstöðu, og það væri það líka. Jeg efast ekki um, að hægt væri að fá 7 hæfa menn til þess að taka að sjer þennan starfa, og ætti Alþingi þá að skipa þá. Þessu skýt jeg fram til athugunar, og skal jeg svo ekki ræða þetta mál meira að sinni.