18.03.1922
Sameinað þing: 7. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (1946)

53. mál, stjórnarskráin

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það kom fram hjá hv. 6. landsk. þm. (G. B.), að þessi till. mundi engan sparnað hafa í för með sjer, vegna þess, að aukaþing yrði háð annaðhvert ár. Það er satt, að síðan 1912 hefir þing verið haldið á hverju ári, en öll aukaþingin nema eitt hafa verið vegna stjórnarskrárbreytinga. Ástandið í heiminum er að vísu ekki orðið gott enn þá, — langt frá því, að heimurinn sje kominn í samt lag aftur, en öll þau vandræði, er af ófriðnum leiddu, hafa þó aðeins orsakað eitt aukaþing, og þarf því ekki, eftir reynslunni að dæma, að búast við mörgum aukaþingum af þeim ástæðum. Tel jeg engan vafa á því, að ef till. verður samþykt, þá fækki þingunum um helming, verði sem sagt ekki nema annaðhvert ár.

Hvert einasta þing hefir ætlað sjer að spara, en það hefir gengið illa. Það er hægra að tala um sparnað en að framkvæma hann. Reynslan sýnir, að hvert einasta þing eyðir meira eða minna fje fyrir utan það, sem nauðsynlegt er. Menn horfa yfirleitt ekki í smáskildinginn hjer á þingi, en það safnast þegar saman kemur. Fyrir mjer er hver 1000 kr. sparnaður mikils virði.

Þá er það fækkun ráðherranna. Nefndin hefir ekki viljað fara nákvæmlega inn á það mál að þessu sinni. Jeg tel líklegt, að þeim megi fækka. Þeir urðu þrír af sjerstökum, persónulegum ástæðum, en ekki fyrir brýna þörf.

Hv. 6. landsk. þm. (G. B.) tók það fram, að stjórnarskráin væri flaustursverk. Jeg tel það of sterkt að orði komist, þó að ýmsu í henni megi breyta til batnaðar. En jeg hefi ekki trú á milliþinganefndum. Þó að hægt væri að fá þær til að vinna kauplaust, sem jeg að vísu efast um, þá yrði kostnaður við nefndina engu að síður töluverður. Slíkar nefndir eru nú upp á síðkastið vanar að gefa út stórar bækur, sem kosta ríkissjóð of fjár. Er mikill hluti þeirra heljarritverka um ýmislegt, sem vel hefði mátt sleppa, svo sem löngum skýrslum um, hvernig þessu eða hinu sje komið fyrir, t. d. í Portúgal, Japan, Mexico og víðar út um allan heim. Svo rífst þingið ár eftir ár um öll þessi ósköp, án alls árangurs, nema stóraukins kostnaðar fyrir ríkissjóð, eða þá leggur alt verk þessara nefnda á hilluna.

Að stjórn landsins hafi farið betur úr hendi síðan hún varð þriggja manna stjórn heldur en á meðan aðeins einn maður bar ábyrgðina, sjá þeir kanske, sem mjer eru skarpvitrari, en jeg sje það ekki.