18.03.1922
Sameinað þing: 7. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (1947)

53. mál, stjórnarskráin

Bjarni Jónsson:

Það er aðeins eitt atriði, sem jeg gleymdi að minnast á áðan, er knýr mig til að standa upp. Það má því eigi skoða þetta sem nýja ræðu, heldur einungis viðbót til að bæta úr gleymsku. En úr því að jeg á annað borð kvaddi mjer hljóðs, þá vildi jeg með örfáum orðum minnast á orðaviðskifti hv. frsm. (S. St.) og hæstv. forseta Ed. (G. B.), þar sem hv. frsm. (S. St.) fór allmjög halloka fyrir skýrum rökum, sem hæstv. forseti (G. B.) kom með, og hafði ekkert á móti þeim að bera, nema að þingin væru orðin svo ábyrgðarlítil í fjármálunum. En þetta er ekki rjett; hjer hafa altaf verið gætin þing, og eru það enn, og sýnir þetta best, að hin snöggu skifti, sem alstaðar hafa orðið í fjármálum nú á síðustu tímum, hafa eigi komið meira við þetta ríki en önnur.

Hvað viðvíkur sparnaðinum af þessari till., þá er hann mjög vafasamur, því að þegar þessar stjórnarskrárdeilur hefjast, má búast við, að aukaþing verði að halda á hverju ári í næstu 6–7 ár, að undangengnum nýjum kosningum. Geta þeir þá reiknað út sparnaðinn, sem vilja. En jeg fyrir mitt leyti vil eindregið hafa stjórnarskrána óbreytta nú um nokkurt árabil.

Þá nefndi hv. frsm. (S. St.) milliþinganefndina, sem skipuð var 1917 í fossamálinu. Hún hefði ekkert gert annað en gefa út stórar bækur. Jeg vil nú spyrja hv. frsm. (S. St.): Hvað átti hún eiginlega að gera annað? Hvíldi kannske skylda á henni að láta fólkið lesa bækurnar? (S. St.: Hún átti að kenna þjóðinni að lesa þær). Ef hv. sparnaðarnefnd vill veita okkur styrk til þess að fara um landið og lesa fyrir þjóðina, ætti að vera vinnandi vegur að kenna henni að lesa. Annars er það harla broslegt að vera að kenna nefndinni um það, þó að bækurnar hafi ef till vill ekki verið lesnar, því að það hefir flestum komið saman um, að fossanefndin hafi unnið vel og samviskusamlega sitt starf.

Þá talaði hv. frsm. (S. St.) um það, að hann vænti þess, að þm., sem búsettir væru hjer í Reykjavík, greiddu ekki atkv. á móti till. fyrir þá sök, að þeir færu á mis við fundið fje, sem hann taldi þingkaup þeirra vera fyrir þá, ef þing væru ekki haldin nema annaðhvert ár. En jeg get nú sannfært hv. frsm. (S. St.) um það, að þeir munu alls ekki greiða atkvæði á móti till. fyrir þá sök.

Jeg vil nú að síðustu spyrja hv. frsm. (S. St.), hvort ekki myndi hugsanlegt, að þingmenn vildu gefa þingfararkaup sitt, því að þá myndi sparast allmikið fje, og þar af leiðandi myndu þingin verða ódýr.

Jeg var einmitt að bíða eftir því, að einhver kæmi með þetta ráð, því að það lá svo beint við, og jeg bjóst líka jafnvel við, að hv. sparnaðarnefnd sæi hjer ef til vill flísina í sínu eigin auga, úr því hún tók eftir bjálkanum í mínu.