05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (1968)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.) sagði, að það hefði ekki verið gert ráð fyrir því á síðasta Alþingi, að þessi maður, sem hjer um ræðir, fengi skaðabætur. En hjer man hann ekki rjett. Jeg lýsti yfir því við umræðurnar um þetta í fyrra, að ef það kæmi í ljós, að maður þessi ætti sanngirniskröfu á því, þá skyldi jeg ekki leggja á móti því, að honum yrði greidd uppbót. Jeg man vel eftir þessu og mun hafa átt orðastað um þetta við 1. þm. Reykv. (Jak. M.), og má vera, að hann muni það líka. Jeg skildi atkvgr. svo í fyrra, að frekari rannsókn ætti fram að fara í málinu.

Eftir þingslit ítrekaði svo þessi maður erindi sitt, og jeg tók þá málið til athugunar. Hinn fyrverandi atvinnumálaráðherra (P. J.), sem nú er látinn, mælti með því, að honum yrðu veittar 5000 krónur, og auk þess hafði landssímastjóri lagt til, að honum yrðu greiddar 10,000 krónur. Það er nú erfitt, þegar svona skjöl eru lesin yfir, að sjá, hvorumegin rjetturinn er, þegar aðiljum ber ekki saman, en það þóttist jeg þó sjá, að Petersen ætti ekki kröfu, sem hægt væri að framfylgja fyrir dómstólunum. En vegna yfirlýsingar minnar vildi jeg ekki hindra, að hann fengi þessa uppbót, og ávísaði því 5000 krónum, eftir beiðni atvinnumálaráðherrans. Ástæðan fyrir því, að jeg lagði á móti þessu í fyrra, var sú, að þá var talað um, að hjer væri á ferðinni hneykslismál, en jeg sá það ekki þá, og sje það ekki enn, að hjer sje neinu slíku til að dreifa. Hvað það snertir, að Petersen hafi verið sett það skilyrði, er honum var greidd uppbótin, að hann mætti ekki höfða mál gegn landssímastjóra, þá er það algerlega rangt. Jeg man vel, að hann spurði um þetta, og jeg sagði, að okkur varðaði ekkert um, hvort, hann höfðaði mál gegn landssímastjóra persónulega, en hann mætti ekki höfða mál gegn landssjóði. Hjer blandar hann því málum.

Ef mál þetta verður rannsakað fyrir rjetti, er jeg reiðubúinn að gefa þessa skýrslu. Jeg hefi ekkert á móti því, að þetta mál verði rannsakað ítarlega, en jeg hefi enga trú á því, að Petersen hafi meira upp úr því. Skjöl málsins bera það ekki með sjer.

Landssímastjóri hefir vísað til mín, sem manns, er væri þessu máli kunnugur. Jeg hefi lesið málið í gegn, og jeg hefi fengið þá sannfæringu, að Petersen eigi hjer enga dómstólakröfu, en efamál geti verið, hvort hann eigi ekki nokkra sanngirniskröfu. Það er ýmislegt, sem bendir til þess, að maðurinn hafi orðið fyrir nokkurri hörku, en það er líka ýmislegt, sem bendir til þess, að hann eigi sjálfur sök á því.