05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (1969)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Jón Þorláksson:

Jeg get ekki neitað því, að jeg varð töluvert hissa, er jeg sá, af hvaða ástæðum hv. fjárveitinganefnd hefir borið þessa þál. fram, bæði af þeim ástæðum, sem hæstv. atvrh. (Kl. J.) flutti, og þá ekki síður af því, að nefndin gefur í skyn, í niðurlagi greinargerðarinnar, algerlega rannsóknarlaust, að landssímastjóri hafi viljað misbeita valdi sínu gagnvart þessum undirmanni sínum. Ef niðurlagsorðin eiga ekki að skiljast á þann veg, þá eru þau meiningarlaus. Úr því að málið hefir tekið þessa vendingu, þá finst mjer, að mjer sje skylt að lýsa skoðun minni á einstökum atriðum þessa máls, sem jeg býst við að mjer sjeu best kunn af öllum þeim, sem hjer eru. Þessi atriði eru þess eðlis, að þau koma ekki fram í málsskjölum, en mikið veltur á þeim um rjettan skilning á þessu máli. Jeg hefi þekt Petersen alla tíð síðan hann kom hingað til landsins, og nokkuð áður, ekki aðeins persónulega, heldur hefi jeg og átt kost á að kynnast starfshæfileikum hans. Hann var um eitt skeið í þjónustu Reykjavíkurbæjar, við verk, sem hann hafði fulla kunnáttu til að vinna, og jeg var í nefnd þeirri í bæjarstjórninni, sem sjá átti um verkið, og hafði því gott tækifæri til að kynnast starfshæfileikum hans. Með því að nú er og hefir verið ráðist ómildilega á yfirboðara hans, bæði af manninum sjálfum og blöðum og hv. fjárveitinganefnd, þá verður ekki hjá því komist að segja sannleikann um þennan mann og ástæðurnar fyrir því, að hann varð að láta af starfi sínu. Höfuðástæðan liggur sem sje í eðli mannsins sjálfs. Hann er óvenjulega óstarfhæfur maður, af manni með svo góðri greind að vera. Hann hefir þann leiða eiginleika, að í stað þess að ganga beint áfram að verki því, sem hann tekst á hendur, þá dregst athygli hans að smámunum, sem kannske snerta verkið, og kannske snerta það ekki. En afleiðingin verður sú, að ekkert kemst í framkvæmd. þannig gekk það við mælingu lóðanna fyrir Reykjavíkurbæ; hann var við það fram undir tvö ár, en árangurslaust með öllu; það varð ekkert úr verki hjá honum. Mjer var kunnugt um það, löngu áður en hann ljet af stöðvarstjórastöðunni, að vegna þessa eiginleika hans voru hreinustu vandræði fyrir landssímastjóra að þurfa að notast við hann í þeirri stöðu. Það komst ekkert í verk hjá honum, og hann varð að kaupa sjer aðstoð í ríkari mæli en aðrir stöðvarstjórar á sambærilegum stöðvum í landinu, og þetta varð til að skerða laun hans. Landssímastjóri orðaði þetta við mig og spurði mig, hvort jeg mundi ekki geta útvegað honum einhverja aðra atvinnu, svo hann gæti losnað við hann á friðsamlegan hátt. Þótt þetta samkvæmt eðli sínu komi ekki fram í málsskjölunum, þá bera þó brjef landssímastjóra til mannsins það með sjer, að hann var orðinn mjög óánægður með starfrækslu hans áður en hann sagði starfinu lausu. En svo er vinnan við stöð þessa óx á síðari árum, þá óx hún manninum gersamlega yfir höfuð, eins og hlaut að verða samkvæmt eiginleikum hans. Þá rak loks að því, að hann sótti um lausn, enda var þá svo komið, að hann hefir hlotið að vita, að honum yrði veitt lausn á annan hátt, ef hann ekki gerði það. Sýnir það aðeins góðvild landssímastjóra í garð þessa manns, að gefa honum kost á að verða fyrri til að segja af sjer, en segja honum ekki upp og skaða með því framtíð hans. En góðvild landssímastjóra gekk lengra. Hann reyndi að útvega honum atvinnu hjer, bæði hjá mjer og öðrum, í von um, að einhversstaðar mætti nota starfskrafta svona manns. En er hann gat enga atvinnu fengið hjer, þá gat maðurinn þess sjálfur, að hann hefði von um að geta fengið atvinnu í föðurlandi sínu, Danmörku, ef hann fengi meðmæli. Og þá gekk landssímastjóri svo langt í góðvild sinni, að hann gaf manninum betra vottorð en undanfarandi reynsla gat rjettlætt. En þessi góðvild hans hefir nú komið honum óþægilega í koll, því að maðurinn, sem góðvildarinnar naut, hefir nú notað hana í árásarefni á landssímastjóra. Þessa vildi jeg láta getið hjer, því að mjer var þetta kunnugt áður en þessi málsskjöl komu fram.

En þá vil jeg víkja að öðru atriði, hvort úrskurður landssímastjóra um starfshæfileika undirmanna sinna verði vefengdur. Ef mönnum er ant um, að starfræksla landssímans gangi þolanlega, þá verður vel að gæta þess að brjóta ekki niður virðingu þá, sem undirmenn eiga að sýna yfirboðurum sínum. Við símann starfa mörg hundruð manna, sem standa undir landssímastjóra. Og svona stór starfræksla fer ekki vel, nema yfirmanninum sje gert fært að ráða. Um það atriði, hvort maður í þessari þjónustu sje starfi sínu vaxinn, verður úrskurður forstjórans að gilda óátalið. Það hefir verið reynt að halda því fram, að landssímastjóra hafi verið í nöp við mann þennan. En því er ekki til að dreifa. Það er kunnugt, að þótt Forberg sje gætinn á hagsmuni ríkissjóðsins, þá er hið besta samkomulag milli hans og starfsfólksins. Það er viðurkent, að íhald hans byggist á umönnun fyrir fyrirtæki því, sem hann veitir forstöðu, en ekki af neinni tilbekni við starfsfólkið. Hann gerir þar ekki annað en það, sem hann álítur embættisskyldu sína.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að því, hvernig málið liggur nú fyrir. Í fyrra sneri Petersen sjer rjetta leið. Er hann þóttist ekki fá viðunandi úrslit hjá næsta yfirboðara, þá sneri hann sjer til landsstjórnarinnar, og hún lagði málið fyrir þingið. En nú hefir Petersen í þetta sinn snúið sjer beint til þingsins, en það er röng leið, og það er ekki rjett að innleiða þá venju. Ef fjárveitinganefnd fann ástæðu til að sinna þessu máli, þá bar henni skylda til að senda það til stjórnarinnar og fá álit hennar. En ef stjórnin ræður því ekki til lykta, þá á þingið að leggja síðasta úrskurð á málið. Hjer er því öfugt að farið, að skora á stjórnina með þál. að rannsaka málið og ráða því til lykta.

Af þessum ástæðum, svo og vegna þess, að jeg vil ekki viðurkenna skoðun þá, sem felst í niðurlagi greinargerðar fjárveitinganefndar, leyfi jeg mjer að vænta þess, að hv. þingdeild veiti þessu máli rjetta afgreiðslu, vísi því til stjórnarinnar, og geri jeg það að tillögu minni.