05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (1970)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það er ekki margt, sem jeg hefi ástæðu til að svara. Hæstv. atvrh. (Kl. J.) gaf aðeins, eins og hann tók fram, „objektiva“ skýrslu um málið, og var hún samhljóða skýrslu þeirri, sem fyrv. atvrh. (P. J.) gaf í fyrra. Jeg hefi því síður ástæðu til að svara, þar sem ræða mín átti líka að vera „objektiv“ skýrsla; jeg viðhafði engin þau orð, sem bentu til, að fjárveitinganefnd legði neinn dóm á málið að svo komnu.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) gat þess í skýrslu sinni, að það væri langt frá að illa hefði verið farið með þennan mann, heldur hefði verið farið vel með hann hvað laun snerti. Mjer kemur nú nokkuð á óvart, að þetta skuli standa í skýrslu landssímastjóra, þar sem hann hefir þó lagt til, að Petersen yrðu veittar 10,000 krónur vegna þess, hve ill launakjör hann hefði búið við. Auk þess hefir hann lagt til, að hús hans væri keypt fyrir meira en sannvirði, að því er virðist. Þetta bendir til, að landssímastjóra hafi fundist maðurinn eiga uppbótarkröfu á hendur ríkissjóði. Auk þess má benda á það, sem getið var um á síðasta þingi, út af launakjörunum, að undarlega þótti við bregða, er þessi maður ljet af starfanum og annar tók við, hversu launin hækkuðu þá.

Eftir því, sem hæstv. atvrh. (Kl. J.) sagði, var það ekki rjett af manni þessum að beina ákærum sínum til þings og stjórnar, og hefði hann fremur átt að snúa sjer til dómstólanna með þær. Þetta getur verið mikið álitamál, en þessi leið er þá opin fyrir honum enn. En alt til þess, að hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) gaf skýrslu sína áðan, gat fjárveitinganefnd haft ástæðu til að ætla, að þessum manni hefðu verið lagðar lífsreglumar um það, að fara ekki í mál.

Þetta er ekki í fyrsta skifti, sem það kemur fram. Það kom fram í blaði í vetur, og hefir ekki verið mótmælt opinberlega fyr en hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) gerir það nú.

Jeg sje enga ástæðu til þess, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) eða stjórnin þurfi að taka það illa upp, þó að fjárveitinganefnd vilji sýna henni það traust, sem felst í þingsályktunartillögunni, því að hæstv. atvrh. (Kl. J.) skildi það rjett, að nefndin leggur til, að hæstv. stjórn ákveði, hvort Petersen eigi að fá skaðabætur, og þá hve miklar.

Jeg ætla ekki að svara hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), því að hann gaf aðeins yfirlýsingu móti yfirlýsingu Petersens. Nefndin vill alls ekki rengja hana á nokkurn hátt, en hún ætlast til, að öll slík atriði þessa máls verði tekin til nákvæmrar rannsóknar af hæstv. stjórn, og kemur þá hans skýring þar til greina. Það er ekki ætlun nefndarinnar, að hjer fari fram nein vitnaleiðsla í hv. deild um þetta mál, en það var eitt atriði í máli hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), sem virðist fremur styðja skoðun fjárveitinganefndar. Þessi hv. þm. (M. G.) sagði, að þegar hann hefði kynt sjer þau skjöl, sem að málinu lúta, hefði hann komist að þeirri niðurstöðu, að Petersen hefði verið nokkurri hörku beittur. Þetta virðist mjer styðja þá skoðun, að rjett sje að rannsaka málið, en kasta því ekki frá sjer að óreyndu.

Þá kem jeg að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Honum fanst ástæða til þess að vitna í þessu máli, ekki um málsskjölin sjálf, heldur um æfiferil þess manns, sem hjer er um að ræða. Það var þó ekki þetta, sem gaf mjer ástæðu til þess að andmæla, heldur það, sem hann sagði um niðurlagið á greinargerð þessarar þingsályktunartillögu. Ef hann skilur þessa greinargerð þannig, að nefndin hafi þar viljað leggja dóm á landssímastjóra um það, að hann hafi misbeitt valdi sínu sem yfirboðari, þá er það fullkomlega rangt, og jeg held, að hann hljóti að sjá, að þessi skilningur hans geti ekki komið til mála, því að, auk þess sem greinargerðin gefur ekkert tilefni til að ætla slíkt, tók jeg það fram í framsöguræðu minni, að nefndin vildi engan dóm leggja á það, hvort landssímastjórinn hefði misbeitt valdi sínu, en ætlaðist aðeins til þess, að hæstv. stjórn gengi úr skugga um það.

Í niðurlagi ræðu sinnar tók þessi hv. þm. (J. Þ.) það fram, að hann mundi ekki greiða atkvæði með þessari þál., því að hann væri engan veginn samþykkur þeirri skoðun, sem kæmi fram síðast í greinargerð hennar. Jeg geri nú ráð fyrir því, að hann muni hjer eiga einmitt við þetta. Nú hefir því verið dróttað að landssímastjóra, að hann hafi misbeitt valdi sínu við Petersen þennan; finst því nefndinni, sem ekki hefir nema gott af landssímastjóra að segja, að hjer verði ekki betra gert en að fela stjórninni að rannsaka málið til hlítar, svo hann geti orðið hreinn af því, sem á hann hefir verið borið.

Jeg skal nú ekki eyða mörgum orðum að því, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði um starfshæfileika þessa Petersens, því að þeir eru svo ókunnir fjárveitinganefnd, að hún hefir enga ástæðu til að dæma þá, en þó vildi jeg geta þess, að þessi lýsing hv. þm. (J. Þ.) þykir mjer skjóta nokkuð skökku við það vottorð, sem landssímastjóri gaf þessum manni, er hann ljet af starfi sínu sem stöðvarstjóri í Vestmannaeyjum. Jeg held, að það hafi ekki verið rjett af hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), þó að hann nú taki upp þykkjuna fyrir landssímastjórann, að minnast á þetta, því af því leiðir, að hann bar landssímastjóra það á brýn, að hann hafi vísvitandi gefið þessum manni rangt vottorð.

Þá vítti hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fjárveitinganefnd fyrir það, að hún hefði ekki látið þetta mál fara rjetta leið, þar sem hún sendi það ekki af sjer til stjórnarinnar. Sömuleiðis sagði hann, að það væri rangt af starfsmönnum ríkisins að senda ekki ákærur sínar fyrst til stjórnarinnar, og gæti hún svo lagt þær fyrir þingið, ef henni sýndist. Að því, er þetta snertir Petersen sjálfan, fæ jeg ekki betur sjeð en að hann sje saklaus af þessum áburði, því að hann sendi fyrst ákærur sínar til stjórnarinnar, og er hann þóttist ekki fá þar næga leiðrjettingu sinna mála, sneri hann sjer til þingsins. Nú taldi fjárveitinganefnd, að enga þýðingu mundi hafa að senda þetta mál til fyrverandi stjórnar, þar sem hún hafði sýnt, að hún vildi ekki sinna því frekar. Hitt gat aftur orkað tvímælis, hvort nefndin hefði ekki átt að vísa því til hinnar nýju stjórnar eftir stjórnarskiftin. En jeg held, að þó að það hefði verið gert, hefði stjórnin átt svo annríkt, að hún hefði ekki getað rannsakað það áður en þingið var úti, en það er tilætlun fjárveitinganefndar, að málinu verði vísað til stjórnarinnar til rannsóknar, ef þingsályktunartillagan verður samþykt, og er þá komin sú rjetta leið hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.).

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) lagði að síðustu til, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar. Jeg veit nú ekki, hvernig á að skilja þetta í sambandi við ræðu hans, því hver er þá munurinn á tillögum hans og fjárveitinganefndar? Aðallega sá, að ef málinu væri vísað til stjórnarinnar án þess að þingsályktunartill. væri samþykt, hefði stjórnin enga heimild til að greiða neitt fje til þessa, þótt hún kæmist að þeirri niðurstöðu, að manninum bæru skaðabætur.

Jeg vona, að hv. deild sjái þetta og samþykki því þingsályktunartillöguna. Annars vil jeg ekki kappræða þetta mál nú fyrir hönd nefndarinnar; jeg hygg, að jeg hafi nú þegar gert nógu hreint fyrir hennar dyrum.