05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (1972)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg hjelt satt að segja, að þau fáu orð, sem jeg mælti áðan, myndu ekki gefa mjer tilefni til að standa upp aftur og kveðja mjer hljóðs. Jeg hjelt, að jeg hefði tekið það svo skýrt fram, að það voru orð landssímastjórans, sem jeg tilfærði, en enginn dómur frá sjálfum mjer, því jeg hefi ekki getað sett mig svo inn í þetta mál, að jeg treysti mjer þegar að taka afstöðu um það. Aðeins skaut jeg því fram sem minni skoðun, að rjettara myndi hafa verið fyrir manninn að snúa sjer til dómstólanna.

Mjer fanst hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) misskilja orð mín viðvíkjandi starfshæfileikum Petersens sem loftskeytastöðvarstjóra. Landssímastjórinn segir, að einmitt honum sjálfum, Petersen, hafi verið það ljóst, að hann væri ekki fær um að gegna því starfi, og það hafi verið í rauninni aðalástæðan til þess, að Petersen sagði upp. Þetta tilfærði jeg sem orð landssímastjóra, en ekki mín eigin.

Sami hv. þm. (Jak. M.) benti á, að laun Petersens hefðu ekki verið nógu há, miðað við það, að eftirmaður hans fjekk þegar talsvert hærri laun, eða um leið og hann tók við starfinu. Þetta má kannske til sanns vegar færa framan af starfstíma Petersens, en landssímastjórinn segir þó í þessu brjefi sínu, að um áramótin 1919 og 1920 hafi laun Petersens verið hækkuð um 100%, og verður ekki annað sagt en það sje sæmileg hækkun frá því, sem áður var.

Þá mintist sami hv. þm. (Jak. M.) á húsakaupin. Jeg hafði það eftir landssímastjóranum, eins og raunar alt í þessu máli, að húsið hefði meðfram verið keypt til þess að gera vel við Petersen. Að hann hafi haft annan kaupanda, finst mjer ekkert ósennilegt, en hitt þykist jeg skilja, að húsið muni hafa verið vel borgað með því verði, sem landssíminn greiddi fyrir það.

Jeg tek þetta fram af því, að jeg býst við, að það komi til minna kasta að rannsaka málið, verði því vísað til stjórnarinnar.

Að öðru leyti hefi jeg aðeins borið það fram, sem landssímastjórinn hefir skrifað mjer í þessu skjali, sem jeg hefi hjer við höndina. Það er langt mál og ítarlegt, og ýmislegt það um þennan starfsmann sagt, sem jeg ætla mjer ekki að halda á lofti hjer í þingsalnum.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að Petersen væri „dugnaðarmaður og góður skrifstofumaður“. Sama vitnisburð ber landssímastjórinn honum líka. Hann segir, að Petersen sje góður „regnskabsförer“,og mun það verasama og góður skrifstofumaður. Og einmitt þetta atriði mun hafa ráðið vottorði landssímastjórans, sem nú hefir verið gert að umtalsefni, en jeg sneiddi hjá með vilja í hinni fyrri ræðu minni. Þetta bendir að minsta kosti á, að landssímastjórinn hefir viljað vera óhlutdrægur.

Viðvíkjandi því, sem jeg sagði áður, að dómsmálaleiðin myndi hafa verið rjettari, þá horfir það nú öðruvísi við, eftir að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir upplýst um það, að Petersen teldi, að hann hefði verið narraður til þess að segja upp stöðunni. Það er rjett; hann stendur ver að vígi, úr því hann hefir sagt upp stöðunni. En mjer skilst, að hjer sje um nýtt rannsóknarefni að ræða.

Þess vegna vil jeg heldur, að þál. verði samþykt en till. hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), um að vísa málinu til stjórnarinnar. Þegar búið er að rannsaka málið af stjórninni, þá er opin leiðin til dómstólanna, ef þurfa þykir.