10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg get verið stuttorður um þá kafla, sem heyra undir mitt ráðuneyti.

Viðvíkjandi Kleppi held jeg að mjer sje óhætt að lofa því, fyrir hönd stjórnarinnar. að viðbótarbyggingin við hann verði með því allra fyrsta, sem bygt verður. Að öðru leyti þakka jeg háttv. nefnd fyrir tillögur hennar og hefi litlu við að bæta. Þó vildi jeg leyfa mjer að minnast lítillega á 9. brtt. við 14. gr., sem fer fram á það, að taka upp fje til kennara í sögu og málfræði íslenskrar tungu að fornu og nýju við háskólann. Jeg er háttv. nefnd mjög þakklátur og vil lýsa ánægju minni yfir þeim skilningi, sem hún hefir á starfsemi háskólans. Og það dylst engum, að einmitt á íslenskusviðinu eru mestar líkurnar fyrir háskóla vorn að skara fram úr og verða þjóðinni til sóma og virðingar.