21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (1996)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Bjarni Jónsson:

Jeg er nú hvorki sorgbitinn nje reiður út af þessari tillögu. En jeg vil benda á það, að ýmsar þjóðlygar, sama eðlis, eru notaðar af oss og hafðar í hávegum. T. d. segjum vjer hv. þm., þótt vjer sjeum að skamma hann, og eins hæstvirt stjórn, þótt vjer sjeum á sama tíma að leitast við að velta henni úr völdum. Þannig má nefna margar fleiri venjur svo er t. d. um ýms ráð, kammerráð, jústitsráð, og alla leið upp í landráð, sem þykir þó naumast vegtylla. Þá þykir og sæmilegra að kalla kennara við háskóla prófessora, sem er latína, heldur en nota íslenskt orð. Þetta er samskonar þjóðrækni sem hjá kirkjunni, sem nefnir englana gríska nafninu, því engill er komið af gríska orðinu angelos, en sendiboðar hins gamla eru þar á móti nefndir árar. Þar var fullgott að nota íslenska orðið. Má því langt leita, ef leggja á allar slíkar venjur niður. Krossar eru ekki eina tegundin eða aðferðin, sem notuð er til að veita heiður. Og þótt þeir þyki eigi altaf koma rjettlátlega niður, þá er sama að segja um ýms önnur mannanna verk. Ekki þykja niðurjöfnunarnefndirnar ávalt rjettlátar í niðurjöfnun sinni.

En að það sýni sjerstaklega mikla sálarstærð að afneita krossunum, er mesta fjarstæða. Það varð auðvitað mikill þytur um Norðurlönd, þegar Björnstjerne Björnson stakk dinglumdanglinu í vasa sinn. Það þótti sálarlegt kraftaverk. En þar sem sami maður beygði sig fyrir ýmsum venjum, sem hann þó fyrirleit, eins og giftingu og staðfestingunni, þá get jeg eigi viðurkent, að þetta með krossana hafi verið svo sjerlega stórt hjá honum eða borið vott um svo sjerlega mikið sálarlegt hugrekki.

Þessi orða er stofnuð á rjettan hátt. Hún er stofnuð til þess að notfæra sjer eina heimsku mannanna, til að sanna öðrum þjóðum, að Ísland sje sjálfstætt ríki. Ættu fáir að verða til þess að mæla á móti því, að þessi saklausa orða sje notuð til þess að auglýsa sjálfstæði landsins. Og eins til þess að veita erlendum mönnum þann sóma, sem er mikils metinn þar.

Að vísu geta skoðanir Íslendinga verið aðrar á þessu máli en skoðanir annara þjóða eru. En þeir geta tekið þetta upp af hagfræðislegum ástæðum, eigi síður en feður vorir tóku kristna trú í lög af sömu ástæðum, til þess að komast hjá innanlandsóeirðum.

Ef Íslendingar líta niður á þetta saklausa glingur, þá er þeim rjett að nota það lítið, en lofa því þó að standa, því að síst ættum vjer að móðga konung Íslands.