21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (1997)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Pjetur Ottesen:

Till. þessi virðist hafa snert viðkvæma strengi hjá hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Hann talaði sem lækni sæmir um þá andlegu og líkamlegu sjúkdómseinkenni, sem till. benti á. En í því, hve hryggur hann var og tók sjer þetta nærri, virtist mjer einmitt koma fram hjá honum eðli barnsins á vissan hátt. Þegar pabbi barnsins fer í kaupstaðinn, vonast það eftir fallegri gjöf og bíður hennar með óþreyju. Fái það gjöfina, gleðst það, en sjái það, að það á ekkert að fá, þá hryggist það. Líkt þessu held jeg sje um hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Jeg get ekki skilið það á annan hátt en þann, að hann vonist eftir „fallegri gjöf“, ef orðutildrið fær að standa; en ef till. yrðu samþ., ylli það vonbrigðum.

Um hv. þm. Dala. (B. J.) þarf jeg ekkert að segja. Honum tókst vel, og þó best, er hann talaði um þessar orður í spaugi, sem hvern annan hjegóma, enda er slíkt málefninu samboðnast.