21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (2000)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Bjarni Jónsson:

hv. þm. (Gunn. S.), sem settist niður, taldi skarð vera komið í vör Skíða hjá mjer hvað sjálfstæðismálin snerti. Það var nú síst furða, þótt honum fyndist það. Vil jeg ekki taka mjer í fang mannjöfnuð við þann sjálfstæðis-Skíða. En jeg vil halda fast við það, að það er sjálfstæðismál að halda fast við orðuna. Það auglýsir út um heiminn, að íslenskt konungsríki sje til, sem bæði getur og vill heiðra vini sína og velgerðamenn. Í öðru lagi er það sjálfstæðisvottur að vera hjer laus við dönsku krossana, því þangað til fálkaorðan var tekin upp hefir legið í landi hjer, að menn hafa sóst eftir og reynt að afla sjer danskra krossa. Mundi svo vera áfram, ef eigi væri þessi orða.

Það er víst til að undirstrika sjálfstæði vort í augum hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að það sje frekar konungur Dana, sem veiti heiðursmerki Íslendingum, heldur en að hann geri það sem konungur Íslendinga sjálfra.

Jeg sagði þegar í byrjun, að mál þetta væri ekkert stórmál, en það er þó saklaust og skaðlaust, en gerir á hinn bóginn talsvert mikið gagn. Eins og jeg hefi áður tekið fram, er það viss vegur til að kynna íslenska konungsríkið í umheiminum sem sjálfstætt ríki, sem skilur, hvað því er vel gert og vill ekki vera vanþakklátt um það.

En hitt er að móðga konung sinn, að vilja nú afnema umgetna orðu.

Það er næstum broslegt að ímynda sjer, að nokkur sálarstærð sje í því fólgin að vilja ýta af sjer þessum hjegóma, sem er mjög lítið misnotaður, en sitja þegjandi undir og reyna ekki til að losa sig við ýmsar verri þjóðlygar og kreddur, svo sem að láta gifta sig og þess háttar. Má segja, að menn lifi á hjegóma yfirleitt.