24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2011)

90. mál, landsverslunin

Halldór Steinsson:

Jeg hefi á undanförnum þingum látið mig þetta mál nokkru skifta og á því bágt með að sitja nú hjá, án þess að leggja nokkur orð í belg.

Jeg ætla mjer ekki að fara út í einstök atriði, en vildi sjerstaklega minnast á landsverslunina alment, og þá einkum hvaða tilverurjett hún hefir haft á liðnum árum og hvaða tilverurjett hún á nú.

Þegar stríðið gaus upp 1914, sat þingið á rökstólum, og þá var það, að mikill ótti greip marga þingmenn, eins og aðra landsmenn, ótti fyrir því, að vöruflutningar mundu að meira eða minna leyti stöðvast til landsins, og þess vegna var þá þegar byrjað á því að gera ráðstafanir til að birgja landið að vörum. Þetta hefði nú verið gott og blessað, ef þessi ótti hefði verið á nokkrum rökum bygður, en svo var ekki, enda reyndist það svo, að engin veruleg tregða var á innflutningi fram á árið 1916. Þess vegna var starfsemi verslunarinnar 2–3 fyrstu árin þarflaus og að mestu leyti fimbulfamb út í loftið. Þegar kemur fram á árið 1916, fara viðskiftin að verða erfiðari, og þessir erfiðleikar vaxa á árinu 1917. þegar svo var komið, hygg jeg, að tæplega hafi orðið hjá því komist að hafa ríkisverslun, sjerstaklega þar sem svo stóð á, að ýmsar vörur voru ófáanlegar, nema undir nafni ríkisins. Þar með er alls ekki sagt, að versluninni hafi verið vel stjórnað eða starfsemi hennar gengið í rjetta átt á þeim árum, síður en svo, því að á henni voru miklir gallar þá, eins og bæði fyr og síðar. Þegar svo stríðinu ljetti, fer þörfin fyrir verslunina hröðum fetum minkandi, og nú má segja, að sú þörf sje algerlega úr sögunni.

Til þess, að ríki haldi uppi verslun með fje sínu, get jeg ekki hugsað mjer nema 3 frambærilegar ástæður:

1. Að vöruskortur sje í landinu og örðugleikar fyrir kaupmenn og kaupfjelög að komast yfir vörur.

2. Að verslunin sje rekin sem gróðafyrirtæki fyrir ríkið.

3. Að verslunin haldi uppi samkepni og veiti með því móti landsmönnum betri kjör en ella.

Jeg vil nú athuga hverja af þessum ástæðum fyrir sig. Jeg vona, að menn geti verið mjer sammála um það, að nú orðið er það litlum örðugleikum bundið að birgja landið upp að vörum. Aðaltregðan hefir í seinni tíð legið í peningakreppunni og yfirfærsluvandræðunum. Þar hefir landsverslunin staðið mörgum eða flestum betur að vígi, þar sem hún hefir oftast haft greiðan aðgang að banka landsins. Það hefir og orðið til að lyfta upp þessari verslun, að skipakomur frá útlöndum til kaupstaða og kauptúna úti um land hafa verið mjög ófullkomnar og því mest viðskifti gengið í gegnum Reykjavík. Nú hefir verið bætt úr þessu og það svo, að skipakomur verða á þessu ári tíðari og fullkomnari en þær jafnvel voru fyrir stríðið. Það sem af er þessu ári hefir verið sjerlega hagstætt bæði til lands og sjávar, mikill fiskafli og útlit fyrir gott verð. En aukin framleiðsla með góðum markaði hlýtur að losa mjög úr peningakreppunni, og þetta alt, í sambandi við hentugar samgöngur við útlönd, útilokar það gersamlega, að ríkið þurfi að halda uppi versluninni sem bjargráðastofnun.

Önnur ástæðan, sú sem sje, að verslunin sje rekin sem gróðafyrirtæki fyrir ríkið, þykir mjer svo fráleit, að jeg tel óþarft að eyða mörgum orðum um hana.

Þegar litið er á reikning verslunarinnar, þangað sem hann nær, og tekið tillit til útistandandi skulda og rekstrarins yfir höfuð, þá leynir það sjer ekki, að gróðinn er ekki eins mikill og vænta hefði mátt. Ef glögg reikningsskil hefðu verið haldin með versluninni frá byrjun og hún ekki notið betri gengiskjara en aðrir og betri vaxtakjara hjá ríkissjóði, auk skattfrelsis og ýmsra annara hlunninda, þá er jeg ekki í neinum vafa um, að það sæist svart á hvítu, að gróði hennar hefir verið minni en enginn. En þetta er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að allri verslun fylgir áhætta, og eftir því meiri, sem verslunin er stærri, og þeir skellir, sem verslunin hefir þegar fengið, bæði á kolum og öðrum vörum, ættu að verða þau víti, sem þing og stjórn ljeti sjer að varnaði verða í framtíðinni. Verslunin hefir hingað til komist nokkum veginn klaklaust yfir þá skelli, en það sýnir engu að síður, hve afskapleg áhætta fylgir slíku fyrirtæki, og má telja það óverjandi að velta henni yfir á fátækan ríkissjóð. Það væri og allmikil ósamkvæmni í því hjá þessu sparnaðarþingi að draga sem mest úr útgjöldum ríkissjóðs, bæði til verklegra framkvæmda og annars, en samþykkja hins vegar, að ríkið hjeldi uppi verslun með ærnum kostnaði, sem ysi út lánum til hinna og annara, sumum tryggum, en öðrum ótryggum, eins og gengur og gerist.

Þá kem jeg að þriðju ástæðunni, þeirri, að verslunin með samkepni veiti landsmönnum betri kjör. Því verður nú að vísu ekki neitað, að verslunin hefir stundum haft vörur með lægra verði en kaupmenn og kaupfjelög, einkum á fyrri árum hennar, en þetta er sannarlega ekki þakkarvert, þegar litið er á þau einkarjettindi og hlunnindi, sem hún hefir haft fram yfir aðra. Það hefði hlotið að bera vott um frámunalega óhagsýni forstjóranna, ef svo hefði ekki verið. Jeg skal aðeins nefna tvö dæmi af ótalmörgum, máli mínu til sönnunar. Engin verslun hefir átt jafngóðan aðgang að Landsbankanum sem landsverslunin, og það á þeim tímum, sem yfirfærsluvandræðin voru mest. Allir sjá, hve mikið hagræði þetta hlýtur að vera. Um langan tíma hafði landsverslunin einkarjettindi á innflutningi á dönskum sykri, svo að það þurfti ekkert sjerstakt mannvit til þess að geta kept við aðra með þá vöru. Þannig mætti telja ótal dæmi. Að rjettu lagi hefði því verslunin að jafnaði átt að hafa ódýrari vörur á boðstólum en aðrir, og þeim mun óskiljanlegra er það, að vöruverð hennar hefir þráfaldlega verið fyrir ofan verð kaupmanna og kaupfjelaga. Ef gengið er út frá því, að landsverslunin hafi jafna aðstöðu og aðrar verslanir, þá er engin frambærileg ástæða fyrir því, að hún geti selt vörur sínar með lægra verði, nema þá með tapi fyrir ríkissjóð, og þar með er þessi ástæða fyrir versluninni einnig vegin og ljettvæg fundin.

Jeg vil taka það fram, að þótt útistandandi skuldir verslunarinnar sjeu miklar og of miklar, miðað við það, að margar þeirra má telja tapaðar og óvissar, þá hefði mjer ekki vaxið það svo mjög í augum, að jeg hefði fyrir þá sök viljað leggjast á móti rekstri hennar áfram, ef um þjóðarnauðsyn hefði verið að ræða, en jeg þykist hafa sýnt fram á, að svo er ekki, og að verslunin, að athuguðu ástandinu í landinu, eins og það nú er, á engan tilverurjett lengur.