24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (2012)

90. mál, landsverslunin

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) beindi til fyrv. stjórnar fyrirspurnum, sem jeg vildi svara nokkrum orðum.

Hann byrjaði á því að halda því fram, að fyrverandi stjórn hefði lagst undir höfuð að hafa eftirlit með landsversluninni samkvæmt ályktun þingsins í fyrra.

Er þá fyrst að athuga sjálfa þingsályktunina frá í fyrra og hvað í henni stendur. Þar er svo kveðið á, að starfsemin miðist mest við að innkalla skuldir og selja fyrirliggjandi vörubirgðir. Kaupum á nauðsynjavöru, svo sem steinolíu, kolum, kornvörum og sykri, sje hagað þannig, að á hverjum tíma sje ekki fyrirliggjandi meiri vörubirgðir en nauðsyn krefur. Hjer er því fyllilega ljóst, að gert er ráð fyrir slíkum vörukaupum, og enginn varnagli sleginn annar en sá að hafa ekki meira fyrirliggjandi en nauðsyn krefji.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) lagði áherslu á það, að starfsemi verslunarinnar hefði ekki átt að vera önnur en selja vörur og innkalla skuldir, og færa því saman kvíarnar. En þetta er allóákveðið, því að aðalstarfsemi verslana yfirleitt er jafnan að selja vörur og ná aftur í andvirði þeirra. Vörukaupin sjálf eru aldrei aðalatriðið, því að hver skyldi vilja kaupa inn vörur nema til að selja þær, og salan og innheimtan er aðalatriðið.

Á þetta finst mjer nauðsynlegt að benda, því að með tilliti til þessarar till. ber að líta á framkvæmdir landsverslunarinnar á þessu ári.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) spurði, hvort ekki hefði verið borin undir stjórnina vörukaup verslunarinnar. En þetta mál heyrði ekki undir mig, nema á tímabili í vetur. Get jeg því eigi svarað, hvort þetta hefir verið gert altaf, en stundum vissi jeg til, að svo var. Forstjóri verslunarinnar var höfundur umræddrar tillögu og hlaut því að vita, hvað í henni lá, og jeg geri ráð fyrir, að fyrverandi atvinnumálaráðherra (P. J.), sem nú er látinn, eins og kunnugt er, hafi látið forstjórann ráða mestu um vörukaupin innan þess ramma, sem þingsályktunin setti. Jeg held, að erfitt verði að sýna, að farið hafi verið út fyrir þennan ramma, og jeg er fús til að taka á mig alla ábyrgð í þessu; hún mun ekki verða þungbær.

Jeg skal geta þess, að stundum voru vörukaup borin undir stjórnina í heild, eins og t. d. þegar Lagarfoss fór til Ameríku síðastliðið haust. Var stjórnin þá spurð um, hvort kaupa skyldi hveiti þar. Þessu neitaði stjórnin fyrst, en þegar ekki var hægt að fá farm í skipið á annan hátt, ákvað stjórnin, að verslunin skyldi kaupa 300 smálestir af hveiti, en gerði það ekki fyr en heildsalar hjer höfðu beðið um, að það væri gert. Og steinolíu- og kolakaup var iðulega rætt um. En hins vegar minnist jeg þess ekki, að verslunin talaði um vörukaup við mig á þeim skamma tíma, sem jeg var atvinnumálaráðherra.

Mjer virtist skína í gegnum ræðu hv. frsm. meiri hl. (O. P.), að landsverslunin hefði lítið dregið saman seglin. En jeg vil í tilefni af því benda honum á, að í árslok 1918 voru skuldir verslunarinnar við ríkissjóð 9,1 milj., í árslok 1919 6,3 milj., í árslok 1920 2,9 milj., og í árslok 1921 ca. 2 milj. Á þessum árum hafa því skuldir hennar lækkað úr 9 milj. niður í 2 milj. Jeg veit vitanlega ekki, hvað hægt er að draga saman seglin á skemstum tíma. En jeg get ekki sjeð annað en að hjer sjeu seglin allmikið dregin saman á tiltölulega stuttum tíma.

Árið 1921 borgaði verslunin minna af skuldum sínum en hún hafði gert stundum áður. En ástæðan var sú, að ríkissjóður var búinn að koma lánum sínum og greiðslum svo fyrir, að hann þurfti ekki á fje að halda. Þótti því ekki rjett að heimta meira fje af landsversluninni en hann þurfti að nota, því á þann hátt hefðu fengist af því minni vextir en með því að hafa það kyrt í landsversluninni.

Um landsverslunina 1922 var gamla stjórnin búin að koma sjer saman um, að hún skyldi aðeins versla með steinolíu og kol, nema ef sjerstaklega stæði á. Einnig var búist við því, að verslunin þyrfti á þessu ári að greiða ríkissjóði 1 milj., til þess að hann gæti staðist þær greiðslur, er á honum hvíla, án þess að taka ný lán, og benti jeg á þetta við umræðumar um fjárlögin. Og þessa upphæð var búist við að hún þyrfti að greiða um 1. júlí í sumar. Verður þá ekki eftir af skuldinni við ríkissjóð 1. júlí 1922 nema rúmlega 1 milj. Sje jeg ekki, að það sje of mikil upphæð fyrir verslunina til þess að geta haldið uppi verslun með steinolíu og tóbak, sem jeg tel sjálfsagt að hún geri, því jeg sje ekki ástæðu til að fresta lögunum frá 1917, um einkasölu á steinolíu. En verði ekki ástæða til þess, þá tel jeg sjálfsagt, að verslunin kaupi inn eins mikið af steinolíu eins og hún getur.

Þar sem nú fjeð er ekki meira en þetta, og varasjóður verslunarinnar bundinn í vörum og hjá viðskiftamönnum, verð jeg að lýsa yfir því, að jeg get fylgt meiri hlutanum í atkvæðagreiðslunni um þetta mál, þótt jeg sje alveg ósamþykkur mörgum atriðum í greinargerð hans.

Hv. frsm. minni hl. (S. F.) sagði, að sjer þætti ekki tap verslunarinnar mikið, þó að það væri milj. kr. En jeg, satt að segja, bjóst ekki við því nándar nærri svo miklu, og vona, að það verði ekki heldur svo mikið, þegar til kemur.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) sagði, að landsverslunin hefði ekkert gert til þess að ná í kol, meðan á kolaverkfallinu stóð í fyrra. Þetta er ekki rjett, því að bæði forstjóri verslunarinnar og stjórnin reyndi mjög mikið til þess, og árangurinn af því er kunnur. (Ó. P.: Kolin voru ónotandi). Hv. frsm. (Ó. P.) segir, að kolin hafi verið slæm, en jeg vildi þá biðja hann að athuga, að það er ekki gott að velja úr vöru, þegar jafnmikil eftirspurn er eftir henni og var í fyrra eftir kolum, á meðan á verkfallinu stóð.

Skal jeg svo endurtaka það og undirstrika, að fyrverandi stjórn var búin að tala við forstjóra landsverslunarinnar (M. K.) um að beina starfsemi verslunarinnar aðallega í þá átt að versla með steinolíu og kol, en ekki aðrar vörur, nema sjerstaklega stæði á. Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar.