24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (2018)

90. mál, landsverslunin

Bjarni Jónsson:

Það er býsna einkennilegt fyrir mig að standa upp, eftir svona mikla ræðumenn, sem beita vopnum sínum svo fimlega, að þrjú sýnast sverðin á lofti. Það er ekki heldur af því, sem jeg stend upp, að jeg ætli mjer að fara í kappdeilur, „mjer er ekki ment sú ljeð, mannsblóð hefi jeg aldrei sjeð“, heldur er orsökin önnur.

Jeg þykist hafa orðið þess var, að í nefndinni hafi ríkt samfeldur vilji þess að draga saman landsverslunina og láta hana aðeins fara með einkasölu ríkisins. Mjer hefir og sýnst frá upphafi, að í hendi samviskusamrar stjórnar væri sama, hvor tillagan væri samþykt. Því að stjórnin er ekki fastbundin við þessar till., heldur fer hún vafalaust eftir stefnuskrá sinni í þessu efni.

Jeg hygg rjettast að draga fje út úr landsversluninni og láta hana ekki fást við annað en einkasölu, t. d. á steinolíu, tóbaki og ef til vill vínum. Er það sennilega mestur vinnusparnaður að hafa einokunarvörumar á einni hendi, og er það einnig í samræmi við almennan vilja.

Annars vita allir hv. þm., að jeg hefi ávalt haldið því fram, að verslunin ætti að vera sem allra frjálsust.

Það hefir verið sagt, að landsverslunin hafi notið ýmsra hlunninda fram yfir aðrar verslanir, svo sem skattfrelsi o. fl. Þetta er alveg rjett að vísu, en svona ætti að vera um allar verslanir; þær ættu allar að vera skattfrjálsar, því enginn þarf að láta sjer detta annað í hug en kaupmenn leggi þá skatta, sem þeir verða að bera, á vörurnar, og það eru því ekki þeir, sem borga skattana, heldur almenningur, sem kaupir vöruna, jafnt fátækir sem ríkir. Jeg segi nú þetta aðeins sem almenna athugasemd.

Það gladdi mig að heyra, að hæstv. stjórn leit eins á þetta mál og jeg, sem sje að draga bæri saman verslunina framvegis. Og í öðru lagi, að sama væri, hvor tillagan næði fram að ganga. Jeg hygg líka, að yfirlýsing hæstv. stjórnar sje í fullu samræmi við almennan vilja manna um þessa verslun. Þótt önnurhvor till. verði samþykt sem áskorun til stjórnarinnar, getur hún vel skorast undan að framfylgja henni. En þegar stjórnin hefir heitið einhverju, verður ekki frá því horfið. Það er því miklu sterkari skuldbinding fyrir stjórnina, er hún hefir gefið yfirlýsingu um eitthvað í heyranda hljóði.

Jeg hefi því hugsað mjer að bera fram rökstudda dagskrá í þessu máli. Er það alls ekki ætlun mín að koma með því í veg fyrir andlega burtreið manna hjer. Jeg hefi þvert á móti ánægju af að sjá, hve fimlega þeim tekst í æfingu mælskulistarinnar. En niðurstaðan vona jeg að verði sú, að fje landsmanna verði sem unt er dregið úr versluninni og eigi haldið áfram vöruinnkaupum, nema svo standi á, sem stjórnin gat um.

Leyfi jeg mjer svo að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Þar sem stjórnin hefir lýst yfir því, að hún muni fara með landslandsverslunina í fullu samræmi við till. þær., sem fram hafa verið bornar um málið, þá telur þingið óþarft að samþykkja áskorun á stjórnina um þetta og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Hygg jeg, að allir geti sætt sig við þessi úrslit málsins, þar sem yfirlýsing hæstv. atvrh. (Kl. J.) er fengin, sem bindur stjórnina langtum sterkari böndum en áskorun þingsins í þessu efni.