24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2019)

90. mál, landsverslunin

Jón Þorláksson:

Það hefir verið gerð tilraun til þess hjer undir umr. að láta líta svo út, sem niðurlagning landsverslunarinnar væri sjerstaklegt hagsmunamál kaupmannastjettarinnar, en andstætt hagsmunum almennings. Jafnhliða hefir þó verið bent á, og það rjettilega, að kaupmenn skulda landsversluninni stórfje, eða um 900 þús. kr. Í rauninni þarf ekki annað en benda á þessar skuldir og á viðskifti þau milli landsverslunar og kaupmanna, sem hljóta að liggja á bak við þær, til þess að sýna, að staðhæfingin um, að niðurlagning landsverslunarinnar sje sjerstakt kappsmál kaupmannastjettarinnar, er staðleysa ein. Þeim kaupmönnum, sem skifta eitthvað við hana, hlýtur frekar að vera það áhugamál, að landsverslunin haldi áfram í sömu mynd og verið hefir, heldur en að hún leggist nú niður. Að vísu má segja, að heildsölunum muni yfirleitt fremur vera kappsmál, að vöruinnflutningur landsverslunarinnar leggist niður, en hið gagnstæða á sjer stað um smásalana yfirleitt. Og þar sem sá flokkur kaupmanna er margfaldur að fjölmenni við heildsalana, þá er ekki ofmælt, að þessi fullyrðing sje staðleysa ein, að þeir, sem nú vilja láta leggja landsverslunina niður, láti stjórnast af hagsmunum kaupmannastjettarinnar, í andstöðu við hagsmuni almennings, fullyrðing, sem auðsjáanlega er skotið fram af fylgismönnum landsverslunarinnar í því skyni að gera málsstað andstæðinganna tortryggilegan, þegar röksemdir brestur til að hnekkja honum.

Ástæðurnar fyrir því, að við viljum leggja landsverslunina niður, eru alt aðrar. Margar þeirra hafa þegar verið teknar fram af hv. frsm. (Ó. P.) og öðrum, þar á meðal sjerstaklega sú ástæða, að allar þær orsakir og ástæður, sem stofnun og tilvera landsverslunarinnar bygðist á, eru nú burtu fallnar. Og jeg vil bæta því við, að landsverslunin, eins og hún nú er rekin, útláns- og skuldaverslun með almennar nauðsynjavörur fyrir reikning ríkissjóðs, fellur alls ekki inn í það þjóðfjelagsskipulag, sem við eigum við að búa, heldur fer hún alveg í bága við það, og þeim orðum mínum skal jeg nú þegar finna stað.

Fyrst vil jeg þó gera athugasemd við þau ummæli, sem fram hafa komið, að nú standi einungis 2 miljónir kr. af landsfje í landsversluninni. Þetta er ekki rjett, og undarlegt, að því skuli vera haldið fram af þeim mönnum, sem ættu þó betur að vita. Að vísu er landsverslunin ekki talin skulda ríkissjóði nema rúmar 2 miljónir kr., en auk þess stendur í landsversluninni varasjóður hennar, á pappírnum hátt á aðra miljón króna, og er hann að mestu til orðinn á þann hátt, að landsversluninni var gefin upp skuld til ríkissjóðs, sem nam l½ miljón, og hefir sú upphæð verið greidd með sjerstökum skatti, sem landsmenn hafa borgað þar að auki notar landsverslunin lánstraust landsins handa sjer, skuldaði til dæmis um síðustu áramót um hálfa miljón kr. Það er vitanlega eigandi verslunarinnar, ríkissjóðurinn, sem skuldar þessa upphæð, og hins vegar er þá sú tilsvarandi upphæð, sem stendur í landsversluninni, eign ríkissjóðsins, alveg eins og á sjer stað um aðrar skuldir ríkissjóðs og eignir þær, sem lánsfje hans stendur í. Það eru því ekki 2, heldur um milj. kr. af almenningsfje, sem stendur í landsversluninni, og þessi upphæð getur vaxið takmarkalaust með því móti, að hún sjálf auki skuldir sínar erlendis.

Þá kem jeg að því meginatriði, hver munur er á, hvernig ráðstafað er þessu opinbera fje, sem stendur í landsversluninni, og hinu, sem stendur beint í ríkissjóði. Samkv. stjórnarskránni sjálfri er óheimilt að greiða nokkra upphæð úr ríkissjóði, nema lagaheimild sje til þess veitt, og þetta ákvæði er með rjettu talið vera einn af hyrningarsteinum þjóðfjelags vors, að löggjafarvaldið, fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi, ráði hvernig farið sje með fje ríkissjóðs. En þessu er öðruvísi varið með þær 4½ milj. kr., sem standa í landsversluninni. Um meðferð þess fjár ræður Alþingi engu, og það er með öllu óverjandi að láta slíka fjárhæð, sem nemur hálfri ársveltu ríkissjóðs, vera undir yfirráðum einstakra manna, íhlutunarlaust af Alþingis hálfu. Með þessu er forstjórum landsverslunarinnar fengið í hendur vald, sem á venjulegum tímum má hvergi vera annarsstaðar en í höndum löggjafarvaldsins. Sem dæmi upp á þennan mismun skal jeg nefna það, að hjer á Alþingi ræðum við máske 9 umræður, og oft með mjög mikilli athygli, og máske þing eftir þing, um það, hvort veita skuli einhverjum ungum manni 600 til 1000 kr. ferðastyrk. En þegar skrifstofustjóri landsverslunarinnar fer í tveggja mánaða ferðalag, sjálfsagt í þarfir verslunarinnar, þá fær hann á níunda þús. kr. í ferðakostnað, eins og reikningar verslunarinnar sýna, og þetta gengur greiðlega, því ekki þarf að hafa fyrir að sækja samþykki Alþingis.

Annað dæmi má og nefna. Hjer á þinginu ræðum við ítarlega og yfirvegum vandlega í hverju einstöku tilfelli, hvort landsstjórninni skuli heimilað að veita lán úr viðlagasjóði til nauðsynjafyrirtækja, hvort sem eru fáar þús. kr. handa sýslufjelagi til að kaupa jörð fyrir læknissetur, eða stórupphæð, sem hjer er talin, svo sem 50 þús. kr., til að koma á fót klæðaverksmiðju. En forstjórn landsverslunarinnar lánar einni einustu erlendri selstöðuverslun 240 þús. kr., að Alþingi algerlega fornspurðu. Og sjálfræði forstjórnarinnar í fjármálum þessum er svo mikið, sem heyra mátti af ummælum hv. þm. Ak. (M. K.) hjer í þinginu, er hann sagðist ekki viðurkenna, að landsverslunarforstjórnin ætti að standa neinum reikningsskap öðrum en stjórninni, og tók það sjerstaklega fram, að þingnefnd eða þinginu teldi hann sjer ekki skylt að gera grein fyrir gerðum sínum. Með þessu eru, eins og jeg hefi tekið fram, umráð þess fjár, sem ríkið á í landsversluninni, dregin alveg úr höndum löggjafarvaldsins.

Jeg skal nú minna á þá almennu ástæðu, sem ráðið hefir því hjer sem annarsstaðar, að svo ríkt er eftir því gengið í stjórnarskipunarlögum þingfrjálsra landa, að fjárveitingarvaldið sje í höndum þjóðarfulltrúanna, en ekki neinna einstakra manna. Ástæðan er dýrkeypt reynsla þjóðanna um það, að í höndum einstakra manna verður þetta vald venjulega misbrúkað. Það segir sig sjálft, að fyrirfram er ekki unt að tryggja það, að slíkt lánveitinga- og fjárbrúkunarvald, sem landsverslunarforstjórinn hefir nú, verði ekki misbrúkað. Sjerstaklega má þó teljast óviðeigandi að láta mann, sem stendur framarlega í flokkadeilum innanlands, hafa slíkt vald í höndum, og þá ekki síst, þegar maðurinn stendur framarlega í fylgiliði stjórnarinnar og vill ekki viðurkenna neinn dómara yfir gerðum sínum nema stjórnina sjálfa.

Ekki þætti mjer ósennilegt, að ef landsmenn ættu að ganga til almennra kosninga næst undir líkum kringumstæðum og nú eru, að mikill fjöldi kaupfjelaga, kaupmanna og einstakra manna er stórskuldugur landsverslun, sem stýrt er af einum manni úr þingliði stjórnarinnar, þá mundu finnast þeir stjórnarandstæðingar, sem segðu, að vald þetta væri misbrúkað til að afla stjórninni kosningafylgis. Með þessu vil jeg þó ekki væna hæstv. núverandi stjórn þess, að hún í raun og veru misbrúkaði þetta vald á þennan hátt, en hún má eiga það víst, að einhverjir ímynda sjer þetta og beita því í kosningahríðinni, af því að það væri svo ofurauðvelt að misbrúka valdið þannig.

Þetta, sem jeg nú hefi nefnt, er fyrir mjer og mörgum öðrum ein aðalástæðan til þess, að við viljum, að þetta mál gangi sinn eðlilega gang, þannig, að þessi landsverslun með almennar nauðsynjavörur verði lögð niður, þegar þörfin, sem skapaði hana, nú er burtu fallin. Þar við vil jeg og bæta því, að jeg tel það almannafje, sem stendur í versluninni, vera í talsverðri hættu. Verslun, sem er almenningseign, hefir miklu verri aðstöðu til að heimta inn torfengnar skuldir en verslanir einstakra manna, því menn gera sjer alment miklu dælla við landssjóðinn í fjárreiðum en við einstaklinga.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir borið fram rökstudda dagskrá með tilvísun til yfirlýsingar stjórnarinnar, og á þar við þau ummæli hæstv. atvrh. (Kl. J.), að ekki mundi verða haldið áfram verslun með aðrar vörutegundir en einkasöluvörur, nema sjerstök nauðsyn beri til, og að stjórninni væri sama, hvor till. yrði samþykt. En þótt hv. þm. Dala. (B. J.) sætti sig við þessa yfirlýsingu, þá er mjer hún ónóg, og get því ekki sætt mig við þá afgreiðslu málsins. Jeg verð sem sje að líta á það, hver muni í raun og veru verða dómari um það, hvort „sjerstök nauðsyn“ í þessu efni sje fyrir hendi. Það er nú alkunn stjórnarvenja, að í öllum þeim greinum starfseminnar, þar sem til eru skipaðir forstjórar utan stjórnarráðsins, þá leitar landsstjórnin ávalt umsagnar þeirra og tillagna um þau mál, sem falla undir verkahring hvers þeirra. Og það má heita föst venja, að stjórnarráðið fari eftir tillögum forstjóranna í þessum málum. Hjer yrði það þá landsverslunarforstjórinn, sem gera ætti tillögur um vörukaup, þegar honum þætti „sjerstök nauðsyn“, en mjer gat ekki betur skilist af ræðu hv. þm. Ak. (M. K.) en að núverandi forstjóra þætti sjerstök nauðsyn á að halda landsversluninni áfram í því formi, sem hún er í nú, og yrði það þá líklega útkoman.

Þó er rjett að líta á, hve miklar líkur eru til, að hæstv. stjórn mundi brjóta í bága við stjórnarvenju og ganga í móti tillögum forstjórans um þetta efni. Er þá á það að líta, að forstjórinn er einn í þingliði stjórnarinnar og talinn einn af stólpunum þar, en þingfylgi hæstv. stjórnar hins vegar svo tæpt, að hún þolir ekki einu sinni að missa atkvæði forstjórans eins, því að þá er hún komin í minni hluta. Mjer þykir því ekki líklegt, að hæstv. stjórn geti breytt á móti tillögum þeim, er landsverslunarforstjórinn kynni að gera, og mun því greiða atkvæði á móti tillögu hv. þm. Dala. (B. J.).