24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (2023)

90. mál, landsverslunin

Frsm. meiri hl. (Ólafur Proppé):

1) Þótt umræðurnar sjeu nú orðnar langar, þá þarf engan að undra, þótt jeg kveðji mjer hljóðs, því að um mig hefir staðið eigi alllítil skæðadrífa sem frsm. meiri hluta nefndarinnar. Þó get jeg stytt mjer nokkuð leið, því að flestir, sem á móti hafa mælt, hafa gripið á sömu atriðunum, og get jeg því svarað þeim að mestu í einu lagi.

Aðalásteytingarsteinn allra, sem andmælt hafa, að undanskildum hæstv. atvrh. (Kl. J.), er greinargerðin fyrir till. meiri hluta nefndarinnar á þskj. 269. Það er því ekki úr vegi að líta nokkuð á þessa greinargerð, þar sem sumir hv. þm. hafa talið hana litaða, og hæstv. forseti (M. K.) hefir jafnvel látið sjer sæma að kalla hana illkvitnislega ritaða. Jeg skal þá fyrst kannast við það, að jeg er höfundur greinargerðarinnar og ber að því leyti ábyrgð á því, sem þar stendur.

Um fyrstu sex málsgreinarnar hefir enginn ágreiningur orðið. Það er aðeins inngangur almenns efnis. Ekki hefir heldur orðið ágreiningur um reikningana; það eru tölur, sem landsverslunin hefir sjálf látið uppi og minni hlutinn hefir tekið upp í sína greinargerð.

Það, sem fyrst hneykslar hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) og hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), eru ummælin um kolaverslunina síðastliðið ár. Til þess, að hv. þm. og aðrir áheyrendur geti heyrt, hvað um þetta er sagt í greinargerðinni, skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa það upp:

„Enda þótt kolareikningurinn sýni 129 þúsund króna tekjuafgang, er það þó síður en svo, að verslunin hafi hagnast á kolaversluninni umliðið ár. Eins og sjá má neðar á reikningnum, hefir verðfall á seldum vörum numið samtals 567 þúsund krónum, en þar af er verðfall á kolum og koksi ca. 398 þúsund. Beint tap hefir því numið ca. 200 þúsund krónum“. Þetta er þá sagt um kolaverslunina. Tapið er ómótmælanlega 200 þús. kr. Jeg vil því bera af mjer, að hjer sje nokkuð rangt frá skýrt, og því síður illkvitnislega. Þetta er ekki sagt til þess að álasa versluninni. Kolakaupin 1920 voru gerð vegna þjóðarnauðsynjar, en verslunin verður að bera skakkaföllin.

Annað atriði, sem líka er töluverður ásteytingarsteinn hjá hv. minni hluta, og sumum hv. þm., er það, sem sagt er í greinargerðinni um gengishagnaðinn. Skal jeg því, með leyfi hæstv. forseta lesa það upp:

„Um „Gengishagnaðinn“, kr. 348 þúsund, sem aðallega mun stafa frá viðskiftum við Ameríku, er það að segja, að ef slíkt óvenjulegt happ hefði eigi hent verslunina á umliðnu ári, hefði árságóðinn, sem, eins og reikningurinn ber með sjer, er kr. 73,385, snúist í 275 þúsund króna rekstrartap.“

Það getur enginn neitað því, að hjer er um óvenjulegt happ að ræða, og landsverslunin hefir aldrei orðið fyrir slíku happi þau 7–8 ár, sem hún hefir starfað, og hún getur ekki gert ráð fyrir slíkum hvalreka í framtíðinni til þess að bæta upp óhöppin og skakkaföllin. Þessu til sönnunar skal jeg geta þess, að á þessu ári er búið að borga í gengismismun 18,240 kr., og mun þó mega líta svo á, að með þessum 18 þús. sjeu ekki öll kurl til grafar komin.

Sje nú litið á það, sem landsverslunin á útistandandi, verður ekki með sanni sagt, að hún sje samkepnisfær. Landsverslunin hefði getað afskrifað sem tap ekki litla upphæð árlega. Jeg hefi því miður ekki getað tínt til öll gögn, en af því, sem jeg hefi sjeð, mundi það nema nokkrum hundruðum þúsunda. (Forseti M. K.: Þvert á móti). Það er því síst að undra, þótt hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) segðist vera hálfdeigur við að halda landsversluninni áfram, enda skal jeg segja það, honum til hróss, að í þeirri nefnd, sem starfaði að rannsókn þessa máls, var hann nær skoðunum okkar en flestir aðrir andstæðingar okkar, og bar lengi sáttaboð milli, og leitaðist við að verða samferða okkur. En jeg verð að segja það, að jeg tel, að betur hafi farið á því, að svo varð ekki.

Hitt er og sannað, að landsverslunin getur ekki staðist sem samkepnisverslun. Hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) sagði, að hún stæði jafnt að vígi og keppinautarnir, en það hefir verið sýnt fram á það, bæði af mjer og öðrum, að það er langt frá því, að svo sje. Því hefir verið haldið hjer fram, að landsverslunin yrði að halda áfram vegna innheimtu á skuldum, og minni hluti nefndarinnar hefir einnig lagt það til, að hún hefði eitthvað af vörum til að miðla viðskiftavinum sínum. Um þetta eru mjög skiftar skoðanir. Jeg verð nú að líta svo á, að það hafi yfirleitt verið ólán landsverslunarinnar, að hún hafði á síðasta ári of miklar vörubirgðir á boðstólum, því að annars hefði þá borgast mikið af skuldum og væri borgað enn, ef ekki væri sífelt stofnað til nýrra skulda. Til dæmis um þetta má geta þess, að landsverslunin hefir á síðustu árum tekið að sjer kaupfjelög og kaupsýslumenn, sem staðið hafa höllum fæti, og lánað þeim upphæðir, sem ekki verða taldar í tugum, heldur hundruðum þúsunda. Þetta skal jeg benda á í bókum verslunarinnar, ef þess verður krafist.

Í þessu sambandi þykir mjer hlýða að geta þess, að hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) sagði, að bækumar sýndu best, hversu mikil nauðsyn væri á því að halda versluninni áfram. Jeg er nú hjer á gagnstæðri skoðun, því að mjer virðast bækurnar einmitt sýna það, að tilverurjettur landsverslunarinnar sje fallinn í burtu. Því það var í fyrstu tilætlun og markmið verslunarinnar að útvega vörur bæjarfjelögum og sýslufjelögum, en nú lánar hún út vörurnar kaupfjelögum og einstökum kaupsýslumönnum, sem þannig nota fje ríkisins til þess að styðja eigin verslun, svo jeg hafi ekki sterkari orð.

Um áætlun skuldanna sagði þessi hv. þm. (M. K.) það, að hún væri hvergi nærri áreiðanleg, en jeg er sannfærður um, að þegar öll kurl koma til grafar, verða þær talsvert meiri en 450 þús. kr.

Ýmsir þeir, sem talað hafa af hálfu minni hlutans, hafa getið þess, að ekki sje von, að afkoma landsverslunarinnar sje góð nú, svo erfitt sem alt verslunarlíf hafi verið á síðasta ári. Jeg held nú, að einmitt vegna þessara erfiðleika hefði verslunin átt að fara varlega, en ýta ekki út vörunum, eins og hún virðist hafa gert, af lítilli forsjá.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) varpaði fram þeirri illkvitni, að jeg hefði talað um í ræðu minni hjer, að jeg vildi láta fara fram rannsókn á landsversluninni. Þetta hlýtur að stafa annaðhvort af misheyrn eða misskilningi, því jeg sagði aðeins, að ef rannsaka ætti hag landsverslunarinnar, yrði það einungis yfirgripsendurskoðun, því að jeg taldi ómögulegt, að það yrði gert nákvæmlega. (J. B.: Hv. þm. (Ó. P.) sagði rannsókn). Jeg sagði aðeins: ef rannsókn ætti að fara fram, en gaf enga bendingu um, að slík rannsókn þyrfti að fara fram.

Þá fór þessi hv. þm. (J. B.) mörgum lofsamlegum orðum um landsverslunina og sagði, að sjálfsagt væri að láta forstjóra hennar sem mest sjálfráðan. Það hefir nokkuð verið vikið að þessu áður, og eru deildar skoðanir um það, hve holt það sje, og skal jeg ekki ræða um það frekar.

Enn fremur varð þm. harla skrafdrjúgt um ýms tylliboð í sambandi við steinolíuverslunina. Jeg hefi því miður ekki getað kynt mjer málið sem vera ber, en vil aðeins lýsa afstöðu nefndarinnar til þess. Nefndinni barst í gær skjal, kurteislega orðað, um að taka þetta mál til rannsóknar. Nefndin sendi aftur forstjóra landsverslunarinnar jafnhógvært erindi, þar sem hún leitaði álits hans um málið. En svarið kom ekki; var því ekki hægt að minnast á þetta í greinargerðinni, og svarið er ekki komið enn.

Mjer skildist á hv. forstjóra landsverslunarinnar, að hann telji sig ekki skyldugan að standa þingnefndum reikningsskap ráðsmensku sinnar. En þegar hjer er um 12 manna nefnd að ræða, sem skipuð er úr báðum þingdeildum, virðist mjer mjög óviðeigandi, að einn þjónn ríkisins skuli líta svo stórt á sig að virða hana ekki einu sinni svars.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) mintist nokkuð á málið og kvaðst ekki hafa haft tíma til að athuga það eða átta sig til fullnustu á því síðan í gær. Þetta get jeg vel skilið. En jeg vona, að honum vinnist tími til að taka afstöðu til þess áður en mjög langt líður, og held, að það væri heppilegast fyrir landsverslunina og steinolíuverslunina. Það er síður en svo, að jeg eða meiri hluti nefndarinnar yfirleitt væni forstjórann ills, en það er þó hollast að leggja öll spilin á borðið, svo að alþjóð gefist kostur á að rannsaka þau.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) talaði mikið um verðlag landsverslunarinnar, og hve langt það væri fyrir neðan heildsalaverð yfirleitt. Þessu til sönnunar nefndi hann ýms dæmi. Jeg skal ekki þrátta um það, að ef landsverslunin hefir til sölu sömu vöru og heildsalar, selji hún hana nokkru ódýrari. En ef hún er ein um hituna, sníður hún verðlagið nokkuð eftir öðrum mælikvarða. Eitt þeirra dæma, sem hv. þm. nefndi, var það, að sykur hefði kostað hjá heildsölum hjer í bænum kr. 1.05 kg., en nú, þegar landsverslunin hefði fengið hann, hefði hún selt hann á kr. 0.95 eða 10 aurum ódýrara kg. Landsverslunin hefir nú fyr verið talsvert riðin við sykurverslun, og jeg vona, að hv. þm. hafi ekki gleymt því, þegar skrifstofustjóri landsverslunarinnar og hæstv. forsrh. (S. E.) stóðu upp á almennum borgarafundi til þess að verja 20 aura skatt, sem lagður var á hvert kg. af sykri, sem þeim þótti nauðsynlegt að leggja á, til þess að bæta upp gömul skakkaföll. Jeg held, að það jafnist fyllilega á við þessa 10 aura lækkun, sem landsverslunin gerir nú í dauðateygjunum, og jeg efast um það, hversu holl slík ráðsmenska sje fyrir ríkissjóð. Sama má og segja um rúgmjöl það, sem landsverslunin selur nú á 50 kr. það er víst, að ef landsverslunin ætti að bera skatta og skyldur ofan á þetta, þá yrði ekki mikið eftir í rekstrarkostnaðinn.

Útúrsnúningum hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) úr þingmálafundargerðum hefir hv. sessunautur minn (H. St.) svarað, og jeg skal aðeins bæta því við, að þessi hv. þm. (Sv. Ó.) hefir lesið þingmálafundargerðirnar mjög illa. Jeg hefi lesið þær allar lið fyrir lið og get sannað, að alt það, sem jeg sagði um þær, var rjett.

Þá held jeg, að jeg hafi minst á flest það, sem hv. þm. mintust á í þessu sambandi, nema það, sem hæstv. forseti (M. K.) sagði. Þessi hv. þm. talaði lengi og af miklum fjálgleik, og fór geist að vanda. Datt mjer þá helst í hug stórt tvinnakefli, sem rakið er ofan af. Þar eru aðeins tvö lög af þræði, og innan undir þeim stór trjedrumbur. (Forseti M. K.: Mjer datt nú helst í hug lítill tappi, þegar hv. frsm. (Ó. P.) talaði). Jeg get nú skilið það, því að nafn mitt minnir dálítið á þá hluti.

Hann sagði, að tortrygni manna til landsverslunarinnar stafaði af því, að kaupmenn gætu ekki litið hana rjettu auga og reyndu að spilla fyrir henni leynt og ljóst. Jeg held, að hv. þm. Ak. (M. K.) fari hjer með algerlega rangt mál, enda er hjer ekki um þetta mál að ræða, heldur hitt, hvort þörf sje á landsversluninni eða ekki. En það hefir verið sýnt fram á það hjer með óyggjandi rökum, að tilverurjetti hennar er nú með öllu lokið.

Um kolaráðstafanir landsverslunarinnar í fyrra, þegar mest á reið, sagði hv. þm. (M. K.) það, að þá hefði hún staðið vel í ístaðinu, og Borgarfarmurinn, sem þá kom hingað, hefði verið hin bestu gufuskipakol, sem hingað hefðu flust. En hvernig stóð þá á því, að landsverslunin vildi kaupa kol af öðrum á sama tíma handa ríkisútgerðinni? Um skattfrelsi landsverslunarinnar hefir verið allmikið rætt, bæði í gær og í dag, og mjer þótti vænt um að heyra, að hv. þm. Ak. (M. K.), forstjóri landsverslunarinnar, var mjer sammála um það, að hún ætti ekki að vera skattfrjáls. En hann hefði þó heldur átt að sjá það í ársbyrjun 1918, þegar hann tók við forstjórn hennar, því að þá væri vörn hans nú miklu affarasælli.

Þá mintist hv. þm. (M. K.) á, að jeg drægi taum steinolíufjelagsins, og hallaði þar rjettu máli, því að jeg tók það fram, að meiri hluti nefndarinnar hefði ekkert út á það að setja, þó að ríkið hefði hönd í bagga með steinolíuversluninni. En hitt var ekki nema eðlilegt, þó að jeg mintist á það í þessu sambandi, að þetta fjelag væri beitt misrjetti, þar sem það verður að borga 6 króna skatt af hverri tunnu, en þann skatt er landsverslunin alveg laus við.

Enn vildi jeg stuttlega drepa á það, að þó að landssjóðsútgerðin komi þessu máli ekki beinlínis við, er hitt þó víst, að landsverslunin hefir haft ómetanlegan hag af henni.

Hv. þm. Ak. (M. K.) sagði að vísu, að það væri aðeins að taka úr öðrum vasanum og stinga í hinn. En þegar rætt er um landsverslunina sjerstaklega, er þetta svo mikið atriði, að ekki má ganga fram hjá því, þegar meta á fjárhagsafkomu hennar. Í ræðu sinni sagði hæstv. forseti (M. K.), að hann teldi þýðingarlaust að elta uppi einstök atriði úr ræðum andstæðinga sinna, og kallaði það sparðatíning. En þó stóð þessi sparðatíningur hans yfir í 1½ klukkustund, en mín ræða var þó aðeins í 1 klukkutíma.

Hv. þm. (M. K.) var svo velviljaður, að hann sagðist kenna í brjósti um mig fyrir ummæli mín um verslunarfrelsið. Jeg beiðist engrar vorkunnar út af því, og vænti, að þau orð mín standi jafnt sem áður fyrir þessum ummælum hans. En jeg get vorkent, að hann verður nú að standa hjer og rjettlæta gerðir sínar frammi fyrir alþjóð, því þó að margt sje vel um þann mann, sannast þó hjer hið fornkveðna, að blindur er hver í sjálfs sín sök.

1) Ó. P. hefir ekki farið sjálfur yfir handrit skrifara að þessari ræðu.