24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (2035)

90. mál, landsverslunin

Jón Þorláksson:

Hæstv. forseti (M. K.) hefir notað sjer aðstöðu sína til að láta mig fá orðið á undan sjer, þrátt fyrir það, þótt jeg sæi, að hann hefði skrifað sig á undan, en það er vafalaust samkvæmt þingsköpunum, og verð jeg því að sjálfsögðu að beygja mig undir það.

Jeg hefi heyrt ræðu hæstv. atvrh. (Kl. J.), en sje, að hann er ekki viðstaddur sem stendur, og ætla því að geyma mjer að svara honum að svo stöddu.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) hjelt því enn fram, að verslunarstjettin væri aðeins mótfallin landsversluninni af eiginhagsmunalegum ástæðum. Þetta er ekki rjett, eins og jeg áður hefi leitt rök að. Kaupmannastjettin lætur stjórnast af alþjóðarheill, ekki síður en aðrar stjettir í landinu, og langt frá því, að eiginhagsmunir ráði skoðunum hennar í þessu máli. öðru atriði í ræðu hv. þm. (J. B.) vil jeg mótmæla. Hann vildi vefengja þá sjerstöðu, sem landsverslunin hefir í þjóðfjelaginu, og tók Landsbankann til samanburðar. Sá samanburður er ekki rjettur. Landsbankinn starfar einungis að örlitlu leyti með ríkissjóðsfje; honum hafa að vísu verið lagðar 100 þús. kr. árlega nú í nokkur ár, en sú upphæð er veitt bankanum á hvers árs fjárlögum, og þar með eru umráð þess fjár á löglegan hátt komin úr höndum þings og stjórnar, eins og þess annars fjár, sem veitt er í fjárlögum og greitt út úr ríkissjóði samkvæmt þeirri heimild. Bankinn vinnur aðallega með fje viðskiftavina sinna og fer alls ekki með fje landssjóðs á sama hátt og landsverslunin gerir.

Þá sje jeg, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) er kominn inn, og vil jeg því minnast á ræðu hans í sambandi við dagskrártill. Hann hefir gefið öldungis fullnægjandi svar viðvíkjandi því, hvað hann geri, ef önnurhvor þáltill. yrði samþ. Hann hefir lýst yfir því, að landsverslun skuli þá ekki rekin með aðrar vörur en einkasöluvörurnar, tóbak og steinolíu, hjer eftir, nema svo stæði á, að einhver vörutegund væri orðin einokuð eða fyrirsjáanlega væri að verða einokuð. En jeg hefi ekki heyrt hann lýsa yfir því, hvort hann mundi framkvæma dagskrártill. á sama hátt. Ef hann gerði það, gæti jeg máske greitt henni atkv. mitt. En meðan sú yfirlýsing er ekki gefin tel jeg rjett að samþykkja meiri hluta till.