24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (2036)

90. mál, landsverslunin

Jakob Möller:

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu eða vekja nýjar deilur, enda er þetta mál orðið svo vel rætt, að vel má við una. Hvað mig snertir, þá þarf jeg enga grein að gera fyrir minni skoðun; jeg hefi áður látið hana í ljós, svo að hún mun flestum kunn. Þar við bætist það, að enginn þm. þarf að ætla sjer að sannfæra aðra hv. þm. í þessu máli. Það er vitanlegt, að því nær allir eru í raun og veru sammála um aðalatriði till., sem nú liggur fyrir, að láta landsverslunina draga saman seglin og leggjast niður. Deilurnar, sem orðið hafa, eru miklu fremur af kappi flokka og einstaklinga en af verulegum skoðanamun. Það sjest best með því að bera saman báðar till., hve munurinn er lítill. Orðamunur er sáralítill og meiningamunur svo sem enginn. Þetta er líkt og var í fyrra. Þá komu fram tvær till. mjög líkar, og sú loðnari var samþykt. Það var nú ekki hið versta, heldur hitt, að framkvæmd málsins síðan hefir orðið enn önnur en sú till. virtist þó ætlast til. Það er þetta, sem hefir vakið óhug manna og ofurkapp þeirra, sem andvígastir eru allri landsverslun. Það er óttinn við það, að landsverslunin sje að verða ofurefli þingsins, að hún sje að verða einskonar ríki í ríkinu. Það er, eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti á, að afstaða flokkanna á þinginu í fyrra rjeð úrslitum, og það ræður að líkindum, að svo fari aftur nú. Landsversluninni hefir síðustu árin verið haldið uppi af flokkspólitískum ástæðum fyrst og fremst. Og í raun og veru er með þessu borinn fyrir borð hinn sanni vilji þm., eins og líka reynt er með óljósu orðalagi á till. að fara í kringum hann.

Jeg stóð nú aðallega upp til þess að skora á hv. þm. að hrista af sjer þessa flokkshlekki og greiða atkv. sjálfstæðir, og þá eiga þeir vitanlega að taka þá till., sem skýrar er orðuð, en það er sú, sem fyr er á dagskránni.

Nú stendur að vísu svo á, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir lýst því allskýrt, að stjórnin muni fara eins með málið, hvor till. sem samþykt verður. Og hann lýsti einnig yfir því, að starfsemi landsverslunarinnar yrði eingöngu bundin við einkasöluvörur, þ. e. tóbakið og steinolíu, sem heita má að sje í einokun fyrir, en því aðeins verði hún látin versla með aðrar vörur, að við borð liggi einokun einstakra manna eða verslunarfjelaga. Og þannig fer þá stjórnin einnig að, þó að till. minni hl. yrði samþykt. Eftir svo skýra yfirlýsingu má stjórnin vita, að eftir því mun verða gengið, að hún hagi sjer þar eftir, og að hún muni verða mint heldur óþægilega á þessa yfirlýsingu sína á næsta þingi, ef eitthvað yrði brugðið út af.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, mætti ætla, að jeg ætlaði að greiða atkvæði með dagskrártill. hv. þm. Dala. (B. J.). En þó að jeg ætli mjer það nú ekki, þá verð jeg að undirstrika það, að þó að sú till. verði samþykt, þá er stjórnin jafnt fyrir það bundin við þá yfirlýsingu, sem hún hefir gefið, því að á þeirri yfirlýsingu er dagskrártillagan bygð. En jeg sje enga ástæðu til að afgreiða málið þannig, en tel einmitt hættu á, að það mundi verða til þess, að reynt yrði fremur að hártoga afstöðu þingsins til þessa máls og teygja framkvæmdirnar meira í þá átt, sem till. minni hl. gengur. Mjer finst rjettast að samþykkja það, sem tekur helst af öll tvímæli um vilja þingsins, og greiði því atkv. með till. meiri hluta nefndarinnar.