03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (2054)

72. mál, prentunarkostnaður ríkissjóðs

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekki getað sannfærst um það af umr. um þetta mál, að ógerningur væri fyrir ríkið að setja á stofn prentsmiðju. Því hefir verið haldið fram, að mikið af prentunarvinnu ríkisins væri skorpuvinna, en það hygg jeg, að sje ekki nema prentun skjalapartsins um þingtímann. Mætti þá haga svo til, að annað þyrfti ekki að prenta um það leyti, því að prentun umræðnanna hefir ekki hingað til byrjað fyr en eftir þingslit. Annan tíma árs mundi þessi prentsmiðja hafa nóg að starfa. Það er margt, sem prenta þarf fyrir ríkið, alt sem hið opinbera þarf að láta prenta, reglugerðir, símaeyðublöð og önnur eyðublöð fyrir hagstofuna, Landsbankann, lögreglustjóra o. fl. o. fl. Þetta er nú skift milli prentsmiðjanna hjer í bænum, og mun vera allmikið verk hjá þeim öllum. Mjer finst því sjálfsagt að fela stjórninni að rannsaka, hvort ríkið geti ekki tekið þetta í sínar hendur. Þeir, sem halda, að prentunarkostnaðurinn sje nú of hár, ættu að vera með því, því að þá má um leið komast að því, hvað prentunin kostar í raun og veru.