03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (2055)

72. mál, prentunarkostnaður ríkissjóðs

Björn Hallsson:

Aðeins nokkur orð út af því, að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að þeir, sem greiddu atkv. með þessari till., gengju út frá því, að ríkisprentsmiðja yrði sett á stofn, og byndu þar með atkvæði sitt síðar. Þessu verð jeg að mótmæla. Till. gerir aðeins ráð fyrir því, að stjórnin rannsaki, hvort tiltækilegt sje, að sett verði á stofn ríkisprentsmiðja. Ef rannsóknin leiðir það í ljós, að það sje æskilegt, þá má vera, að það ráð verði tekið, en ef hið gagnstæða kemur fram, verður því auðvitað hafnað. Því er það villukenning, að þeir þm. bindi sig við málið síðar, sem greiða þessari till. atkv. Það er kvartað yfir því þing eftir þing, að prentunarkostnaður ríkisins sje orðinn ærið mikill, og að prentsmiðjurnar okri á prentuninni. En þegar á að gera tilraun til þess að rannsaka, hvort ekki muni hægt að velta þessari okrun af ríkissjóði, þá rísa talsmenn prentsmiðjanna upp og vilja láta alt vera í sama fari! Jeg tel rjett og sjálfsagt, að þetta sje rannsakað, og greiði því hiklaust atkv. með þessari þál., en vil ekki svæfa málið með því að vísa því til stjórnarinnar.