25.03.1922
Sameinað þing: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (2061)

66. mál, skipun embætta og sýsla

Sveinn Ólafsson:

Jeg sje ekki ástæðu til að taka málið af dagskrá, þó að flutningsmaður sje ekki við, því jeg hygg, að hv. þm. sjeu búnir að átta sig svo á þessari till., að þeir geti greitt um hana atkvæði. Hún felur ekkert annað í sjer en að biðja stjórnina að muna eftir því, sem hún lofaði að gera, þegar hún tók við stjórnartaumunum, og því, sem hún hefir marglýst yfir síðan, að hún mundi gera.

Jeg verð því að álíta, að till. sje beinlínis ókurteis og móðgandi fyrir stjórnina, og er jeg fyrir mitt leyti löngu ákveðinn í því að greiða atkv. á móti henni. Það getur vel verið, að hv. flm. (Gunn. S.) hefði viljað segja eitthvað gegn því, sem jeg hefi nú sagt, eða till. til málsbóta. En þrátt fyrir það tel jeg enga ástæðu til að taka málið af dagskrá.